Á árunum 2008 og 2009 voru gerðar hjá Matís fitusýrugreiningar á 51 sýni af matvörum í þeim tilgangi að uppfæra gögn í ÍSGEM gagnagrunninum um efnainnihald matvæla. Verkefnið var unnið í samstarfi við Lýðheilsustöð og Matvælastofnun.
Áhersla var lögð á að kanna magn trans-fitusýra í unnum matvælum og því voru tekin sýni af borðsmjörlíki, bökunarvörum, djúpsteikingarfeiti, mat frá skyndibitastöðum, ís, kexi, snakki og sælgæti.
Í næringarráðleggingum er mælt með því að fólk borði eins lítið af trans-fitusýrum úr iðnaðarhráefni og hægt er. Einnig er mælt með því að takmarka neyslu á mettuðum fitusýrum. Með þessu móti er hægt að draga úr líkum á hjartasjúkdómum. Skortur hefur verið á upplýsingum um trans-fitusýrur í matvælum á íslenskum markaði en nú hefur að nokkru leyti verið bætt úr því.
Stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995. Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var.
Í öllum flokkum matvara greindust a.m.k. sum sýnanna með litlu sem engu af trans-fitusýrum og er það mikil breyting frá því sem verið hefur. Til dæmis var nær ekkert af trans-fitusýrum í þeim tegundum af kexi sem teknar voru til skoðunar. Þetta sýnir að matvælaiðnaðurinn hefur fundið leiðir til að framleiða afurðir án trans-fitusýra. Það greindist þó talsvert af trans- fitusýrum í nokkrum sýnum af smjörlíki, bökunarvörum, ís og poppkorni. Ljóst er að framleiðendur geta endurbætt þessar vörur og losað þær við trans-fitusýrur. Niðurstöðurnar eru í samræmi við það að víða erlendis hefur náðst góður árangur við að draga úr trans-fitusýrum í matvælum.
Niðurstöður fitusýrugreininganna eru teknar saman fyrir fitusýruflokka í töflu á næstu síðu.
Helstu niðurstöður mælinganna voru:
- Hlutfall trans-fitusýra í þeim matvælum, sem greind voru, hafði almennt lækkað frá árinu 1995 en þá var gerð stór rannsókn á fitusýrum í íslenskum matvælum.
- Í sýnum af kexi var mjög lítið af trans-fitusýrum (undir 0,8% af fitusýrum). Í sýnum af sælgæti var lítið af trans-fitusýrum (undir 2% af fitusýrum). Í sýnum af mat frá skyndibitastöðum voru trans-fitusýrur undir 3,5% af fitusýrum.
- Í sýnum af borðsmjörlíki, bökunarvörum, jurtaís, smjörlíki og snakki voru matvörur frá sumum framleiðendum með mikið af trans-fitusýrum en í sýnum frá öðrum framleiðendum var magn þessara fitusýra óverulegt. Þetta sýnir að vel er framkvæmanlegt að framleiða þessi matvæli án trans-fitusýra.
- Merkingar á umbúðum stóðust ekki í öllum tilfellum fyrir þær vörur sem voru til skoðunar. Umbúðir fyrir eitt kexsýnið bentu til þess að trans-fitusýrur væru í kexinu þar sem tilgreind var jurtafeiti hert að hluta. Það reyndist hins vegar ekki rétt, kexið var laust við trans fitusýrur.
Í Danmörku er hámarksgildi fyrir transfitusýrur úr iðnaðarhráefni 2% af öllum fitusýrum. Hlutfallið er undir þessum mörkum fyrir 27 vörumerki og tegundir safnsýna af alls 42 eða 64% af öllum vörumerkjunum og tegundum safnsýna.
Rétt er að benda á að þótt transfitusýrum sé útrýmt úr ákveðnum fæðutegundum þá er ennþá sá möguleiki fyrir hendi að varan innihaldi mettaða fitu og það ef til vill í miklu magni.
Þótt magn trans-fitusýra sé almennt ekki merkt á umbúðir matvæla geta neytendur samt dregið vissar ályktanir af innihaldslýsingum. Ef jurtaolía er eina fituhráefnið má reikna með að matvælið innihaldi ekki trans-fitusýrur og tekist hafi að halda mettuðum fitusýrum í lágmarki. Sérstaklega ætti að huga að þessu í innihaldslýsingum fyrir brauð, kökur og kex. Hafa þarf í huga að kókosfeiti og pálmafeiti eru harðar feitmetistegundir úr jurtaríkinu og innihalda mikið af mettuðum fitusýrum. Ef fita hert að hluta (partially hydrogenated) kemur fyrir í innihaldslýsingu má gera ráð fyrir trans-fitusýrum. Hert fita er hins vegar ekki sönnun þess að trans-fitusýrur séu í vörunni en gera þarf ráð fyrir talsverðu af mettuðum fitusýrum.
Heildarniðurstöður úr ofangreindri rannsókn munu innan tíðar birtast í ÍSGEM gagnagrunninum.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal(at)matis.is.
Niðurstöður fitusýrugreininga á matvælum 2008 og 2009 (pdf skjal).