Alifuglar

Undirbúningur fyrir slátrun
Undirbúningur fyrir tínslu í slátrun hefst með því að tryggja að fuglarnir hafi náð fyrirfram ákveðinni lífþyngd. Einnig skal vera búið að rannsaka tilskilinn fjölda sýna með tilliti til salmonellu og kampylobakter. Ef salmonella greinist, fæst ekki sláturleyfi og ef kampylobakter greinist, skulu allar afurðir frystar eða hitameðhöndlaðar. Hér á eftir er mest rætt um kjúklinga, en sömu atriði gilda einnig fyrir aðra alifugla.

Daginn áður en kjúklingar eru tíndir í slátrun, skal slökkt á fóðurkerfinu þannig að kjúklingarnir séu fóðurlausir í 6-8 klukkustundir áður en þeir eru settir í sláturkassana. Hversu löngu fyrir tínslu slökkt er á fóðurkerfi er breytilegt því mismunandi er hversu mikið fóður er í hinum ýmsu gerðum fóðurkerfa. Þegar kjúklingar eru fóðurlausir í 6-8 klst., meltist fóðrið sem þeir hafa étið og megnið af úrganginum nær að ganga niður af þeim. Þannig nást hreinni fuglar til slátrunar. Ef fuglarnir eru sveltir of lengi, léttast þeir vegna vökvataps.

Í kjúklingaeldi er notað „allt inn-allt út”-kerfi, en stundum er fyrst tekinn hluti af fuglunum í slátrun en þeir sem eftir eru síðan aldir áfram. Mikilvægt er að gæta fyllstu smitgátar við slíkt fyrirkomulag vegna aukinnar hættu á kampylobaktersmiti í þeim hluta eldishópsins sem síðar er slátrað. Best er að hólfa niður eldishúsið með girðingu áður en byrjað er að tína í slátrun og síðan taka fóðrið af hópnum sem ákveðið er að slátra, en láta hinn hópinn hafa aðgang að fóðri.

Allir fuglar skulu hafa aðgang að drykkjarvatni þar til tínt er í slátrun.

Tínsla og flutningur
Fuglarnir eiga ekki að koma í sláturhús fyrr en rétt áður en þeim er slátrað. Oftast er slátrað frá því snemma morguns og fram að/yfir hádegi svo rétti tíminn til að tína fugla í slátrun er á nóttunni eða snemma morguns. Ef tínt er of snemma, t.d. daginn fyrir slátrun, léttast fuglarnir vegna vökvataps og gæði afurðanna minnka. Einnig verða fuglarnir skítugri því notaðir eru kassar með rimlum til að flytja þá í slátrun. Óhjákvæmilegt er að fuglarnir losi sig við saur sem fellur niður á fuglana í neðri kössunum, þegar þeim er staflað. Óþarfa biðtími í sláturkössum er ekki góð meðferð á dýrum. Sláturkassa er mun erfiðara að þrífa á fullnægjandi hátt, ef fuglarnir eru geymdir lengi í þeim. Góð þrif á sláturkössum skipta sköpum við að rjúfa kampylobaktersmit milli eldishópa.

Tínsla skal fara fram í rökkri eða með daufu bláu ljósi því þannig eru fuglarnir rólegastir. Fuglarnir eru handtíndir og settir í sláturkassa (sjá 1. mynd). Fjöldi fugla í hverjum kassa er háður stærð þeirra og stærð fuglanna. Ekki skal hafa fleiri fugla í hverjum kassa en svo að þeir geti lagst og staðið eðlilega, sjá 1. töflu um rýmisþarfir alifugla. Kössunum er síðan staflað og þeir hífðir upp á sérútbúna fuglaflutningabíla. Öll meðhöndlun fuglanna við tínslu og flutninga skal fara fram hávaðalaust með varkárni og rósemi svo komist verði hjá streitu og meiðslum á fuglunum og að mar myndist á afurðum.

Unnt er að nota tínsluvélar til þess að tína fuglana í kassa og rannsóknir sýna að notkun þeirra veldur ekki streitu hjá fuglunum né meiðslum á þeim. Tínsluvélar henta best þegar um stóra sláturhópa er að ræða, eða yfir 20-25.000 fugla, því tiltölulega mikill tími fer í þrif og sótthreinsun á tækjum, bæði fyrir og eftir tínslu, svo komist sé hjá því að smit berist með vélunum. Stærð sláturhópa hérlendis er á bilinu 1.000 – 15.000 og engar tínsluvélar eru notaðar. Flytja skal fuglana beina leið í slátrun (sjá 2. mynd). Tryggja skal nægilega loftræstingu og rétt hitastig á meðan á flutningi stendur. Æskilegur hiti við flutning er á bilinu 10 til 25°C. Hiti má alls ekki vera hærri en 30°C né lægri en 5°C.

Lífþungi (kg)Rými (cm2/kg)
Undir 1,6180-200
1,6-3,0160
3,0-5,0115
Yfir 5,0105



Móttaka í sláturhúsi

Móttökuherbergi skal vera nægilega stórt til að rúma alla fugla sem áætlað er að slátra á einum degi. Þar skal vera nægjanleg loftræsting, rétt hitastig og unnt að minnka ljósstyrk þannig að fuglarnir séu rólegir meðan beðið er slátrunar. Æskilegur hiti í móttökunni er á bilinu 15 til 22°C.

Fuglarnir eru annaðhvort teknir upp úr sláturkössunum með höndum eða losaðir í sérútbúna safnþró. Síðan eru þeir hengdir upp á fótunum á sláturlínunni. Tryggja skal að nægur mannskapur sé við upphengingu svo komist verði hjá harkalegri meðferð og meiðslum á fuglunum.