Loðna

Latína: Mallotus villosus
Enska: Capelin
Danska: Lodde
Færeyska: Loðnasild
Norska: Lodde
Þýska: Lodde
Franska: Capelan

Karlloðnan hefur mun stærri raufarugga en
kvenloðnan og er yfirleitt nokkuð stærri

Lifnaðarhættir

Fyrir nokkrum áratugum var lítið vitað um loðnu, nema hvað að hún barst í feiknastórum torfum upp að Austurlandi á vetrum. Um miðjan 7. áratugin hófust síðan veiðar á þessum fiski og nokkrum árum síðar var hún orðin einn mesti nytjafiskur Íslendinga.

Loðnu er að finna í nyrstu höfum jarðarinnar þar sem hún er mjög útbreidd. Hún er t.a.m. í Hvítahafi, Barentshafi, við N-Noreg, Ísland, Grænland og einnig er hún norðan Kanada. Í Kyrrahafi var talið að um aðra tegund væri þar að ræða, en nú er almennt talið tegundin sé sú sama. Í N-Atlantshafi og Barentshafi eru fjórir sjálfstæðir loðnustofnar.

Loðnan er uppsjávarfiskur sem leitar til botns á grunnsævi til þess að hrygna, en að mestu leyti er hún langt norður í höfum í leit að æti. Fæða loðnunnar eru ýmiskonar svifdýr s.s. krabbaflær, ljósáta, pílormar, fiskaegg og seiði.

Loðnan hrygnir að mestu leyti við S og SV-strönd Íslands, frá Hornafirði og vestur á Breiðafjörð, en eitthvað mun þó vera um að hún hrygni út af Vestfjörðum og við N og NA-land. Hrygningin hefst um mánaðarmótin febrúar/mars og stendur fram í apríl við S og SV-ströndina, en seinna á norðursvæðinu. Um og upp úr áramótum er aðalhrygningagangan norður af Melrakkasléttu, í janúar er hún út af Austfjörðum og er síðan við Stokknes í byrjun febrúar. Hrogn loðnunnar límast við steina og skelbrot á botninum. Talið er að loðnan drepist að langmestu leyti að hrygningu lokinni, en þó mun eitthvað vera um að kvenloðna hrygni tvisvar en karlloðnan er ekki talin lifa af nema eina hrygningu.

Loðnan vex mjög hratt og er orðin 9-14 sm tveggja ára, þriggja ára er hún orðin 13-17 sm og fjögurra ára er hún 15-19 sm að lengd. Íslenska loðnan verður ekki eldri en fjögurra ára, nema með örfáum undantekningum. Kynþroska verður hún stöku sinnum tveggja ára, en flestar ná kynþroska þriggja eða fjögurra ára. Loðnan í Barentshafi verður eldri og hrygnir 4-5 ára og loðnan við Grænland og Kanada verður enn eldri.

Loðnan er fæða margar dýra eins og hvala, sela, fugla og hún er mikilvæg fæða þorsksins og grálúðunnar.
(Heimild: Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson, Fjölvi 1992).


Loðnuafurðir

Loðnan fór að langmestu til bræðslu árið 2003 og það sama á við flest ár.  Það er mjög háð markaðsaðstæðum og loðnuvertíðum hverju sinni við Noreg og Kanada hve mikið af loðnu er fryst.

Mjög fáar afurðir eru framleiddar úr loðnu aðrar en mjöl og lýsi. Þó eru framleiddar, auk heilfrystrar loðnu, nokkrar gerðir kavíars úr loðnuhrognum. En það er sú gerð kavíars sem hentar t.d. fyrir Gyðinga þar sem þeir mega ekki borða afurðir úr fiskum sem ekki eru með hreistur eins og t.d. grásleppu og styrju.

Loðnumjöl er sú afurð sem framleidd er í mestu magni og fer mjölið mest í fóðurframleiðslu fyrir fiskeldi, enda er stærsta viðskiptalandið Noregur sem nýtir það einkum til að búa til laxafóður.

Loðnulýsið fer eins og mjölið mest til fóðurframleiðslu fyrir fiskeldi, og til Noregs fer mest af lýsinu.

Það er ekki lengur bara fryst loðna fyrir Japansmarkað; árið 2000 fór mest af loðnunni til landa fyrrum Sovétríkjanna eða um 62% af magninu. 

Loðnuhrognin fara að langmestu leyti til Japans. Hrogn sem seld eru til annarra landa eru að mestu notuð til framleiðslu á kavíar.  Í útflutningsskýrslum er talað um “niðursoðin” hrogn, en eðlilegra væri að tala um niðurlögð hrogn þar sem hér er um að ræða kavíar, sem er í besta falli gerilsneyddur.

Næringargildi loðnu
Næringarefnataflan hér fyrir neðan er bara fyllt að hluta þar sem ekki liggja fyrir fleiri niðurstöður.