Fiskverkendur

Fiskverkendur eru mikilvægur hlekkur í virðiskeðjunni sem nær alla leið frá því fiskurinn er veiddur þar til hann er kominn á disk neytandans.  Vönduð vinnubrögð á fyrri stigum keðjunnar geta verið til einskis unnin ef fiskverkandinn nýtir ekki upplýsingarnar sem honum standa til boða eða umgengst ekki hráefnið með virðingu.  Mikilvægt er t.d að fiskverkandinn gæti þess að viðhalda órofinni kælikeðju; geri sér grein fyrir aldri og ástandi hráefnisins og hagi því vinnslu og merkingu á vörunni í samræmi við það; varist krossmengun, gæti að hreinlæti o.s.frv.

  • Órofin kælikeðja er megin forsenda fyrir því að fiskur geti viðhaldið ferskleika sínum í sem lengstan tíma.  Gæta þarf þess að hitastig fiskholdsins sé ávalt í kringum 0°C og að það verði alls ekki fyrir hitasveiflum á leið þess til neytandans.  Það þurfa því allir hlekkir keðjunnar að hafa þetta í huga, en þó er vitað að oft koma upp vandamál þessu tengt eftir að fiskurinn yfirgefur fiskmarkaðinn, til dæmis er vel þekkt að sumir fiskverkendur flytja fiskinn frá markaði til vinnslu á opnum sendibílum, þar sem sólinn fær að skína óhindrað á fiskinn.
  • Góð hráefnismeðhöndlun þar sem hreinlæti og fagleg vinnubrögð eru í hávegum höfð skiptir gífurlega miklu máli.  Koma þarf í veg fyrir krossmengun með því að huga vel að hreinlæti á öllum stigum vinnslunnar, til dæmis þarf að fara varlega ef verið er að vinna misjafnlega gamlan fisk á sama degi.  Þá þarf helst að vinna nýrri fiskinn fyrst, eða þrífa allar vélar og tæki á milli.  Í þessu samhengi er því mikilvægt að fiskverkandinn viti um aldur og ástand hráefnisins.
  • Rekjanleiki einn hlekk aftur á bak og einn hlekk áfram er í dag lögbundin skylda allra sem koma að virðiskeðju matvæla í Bretlandi og innan Evrópusambandsins.  Til stendur þó að breyta þessum lögum á þann hátt að allir hlekkir keðjunnar geti greint frá heildar leið vörunnar í gegnum virðiskeðjuna.  Mikilvægt er að menn átti sig á að rekjanleiki er ekki bara lagaleg skylda sem menn neyðast til að framfylgja, heldur skapar hann tækifæri til að bæta flutning og vinnslu, auk þess sem rekjanleikinn gerir okkur kleyft að aðgreina okkur betur á markaði.  Sjálfvirk gagnaskráning sem fylgir vörunni eftir er það sem koma skal í þessum efnum og veitir slík skráning m.a. fiskverkendum möguleika á að aðlaga hráefnisöflun, vinnslu og merkingar að þeim gögnum sem fyrir hendi liggja.
  • Merkingar á umbuðum sem tilgreina um hvaða fisktegund sé að ræða, á hvaða FAO veiðisvæði hann hafi verið veiddur, hver sé síðasti söludagur og næringargildi eru lögbundnar á Bretlandi.  Aukin rekjanleiki gerir mönnum hins vegar kleift að auka umtalsvert við þær upplýsingar sem settar eru á neitendaumbúðir og er þá farið að verða góður grundvöllur til að aðgreina vöruna betur á markaði.  Hægt er til að mynda að merkja umbúðirnar með upplýsingum um nákvæmt veiðisvæði, veiðidag, nafn veiðiskips, veiðarfæri o.s.frv. en þannig er í raun hægt að „selja söguna“ á bakvið fiskinn.  En til að þetta sé raunhæfur kostur þarf að innleiða sjálfvirka gagnaskráningu á rafrænu formi, en liður í því er t.d. rafræn afladagbók sem tekin verður í gagnið hérlendis innan skamms.  Einnig er áhugi meðal smásala og neytenda í Bretlandi á að vita hver umhverfisáhrif matvæla sé og hafa í því sambandi komið upp ýmsar tegundir merkinga á síðustu árum sem segja meðal annars til um hvort fiskurinn komi úr sjálfbært nýttum stofni eða hver sótspor (carbon footprint) vörunnar sé.
  • Upplýsingar þurfa að skila sér í báðar áttir, þannig að þeir sem á undan koma í virðiskeðjunni hafi gagn af.  Þannig er mikilvægt að framleiðendur í Bretlandi láti vita ef þeir telja að eitthvað megi betur fara, eða ef þeir eru sérstaklega ánægðir með eitthvað.  Lykillinn að aukinni verðmætasköpun í virðiskeðjunnar er að öll keðjan vinni í sameiningu að úrbótum.  Upplýsingar um veiðidag og veiðiskip eru einnig verðmætar fyrir fiskverkendur þar sem þeir geta nýtt sér þau gögn til að stjórna kaupum sínum á hráefni.  Þetta er sérstaklega mikilvægt ef þeir kaupa afla óséð í gegnum rafrænt uppboðskerfi Fishgate, þar sem veiðidagur ásamt orðspori veiðiskipsins gefur vísbendingu um frágang, ástand og ferskleika hráefnisins.