Íshúð

Íshúð er hægt að mæla með tvennum hætti það er í vinnslu og eftir vinnslu. Flestir framleiðendur fylgjast með íshúðun vöru með þeim hætti að vigta flök fyrir og eftir íshúðun til að meta hve mikil íshúðin er sem hluti af lokaafurð. Kaupendur og eftirlitsaðilar verða að beita þeirri aðferð að skola íshúðina af til þess að meta hlutfall íshúðarinnar.

Þessar aðferðir geta gefið mismunandi niðurstöður. Ef mæling er gerð stuttu eftir vinnslu þá skilar sú aðferð yfirleitt hærri mælingu heldur en mæling sem gerð er í vinnslu, ástæðan fyrir því getur verið t.d. vegna þess að á flökum fyrir frystingu er laust vatn sem bætist við íshúðina og þegar íshúðin er skoluð af þá bætist þetta vatn við og reiknast sem íshúð. Einnig er ákveðin hætta við eftir vinnslu aðferðina að flökin séu skoluð of mikið þannig að efsta yfirborð flakanna sé þiðið og vatn úr flökunum sjálfum bætist við íshúðunargildið.

Ef aftur á móti líður langur tími frá framleiðslu þar til íshúð er skoluð af þá getur slík mæling sýnt töluvert lægra gildi heldur en kemur fram í gæðaskýrslum framleiðenda. Íshúð rýrnar á geymslutímanum og veldur þar mestu illa lokaðar umbúðir og hitasveiflur í geymslu og flutningi.

Í vinnslu
Þessa aðferð nota flestir framleiðendur sem lið í gæðaeftirliti flökin eða flakabitarnir eru vigtaðir eftir frystingu en fyrir íshúðun og sú vigt skráð, síðan eru flökin sett í gegnum íshúðunarferlið og vigtuð að nýju. Þyngdaraukningin er reiknuð samkvæmt eftirfarandi aðferð:
Vigt eftir íshúðun – vigt fyrir íshúðun / vigt eftir íshúðun x 100 = % íshúð

Niðurstaðan gefur hlutfall íshúðar á lokaafurð.

Eftir vinnslu
Það er á þessu stigi sem kaupendur og eftirlitsaðilar hafa möguleika á að mæla íshúð og þá er eftirfarandi aðferð notuð.

Vigta þarf nokkur flök eða flakabita og skrá vigt V1, sem er í þessu dæmi 515 g

Skola skal flökin með volgu vatni 15-20°C, og strjúka flökin til þess að finna hvort íshúðin er farin af. Gæta verður þess að skola ekki í of heitu vatni eða of lengi þannig að efsta yfirborð flakanna þiðni.

Þerra skal flökin létt með bréfþurrku til þess að fjarlægja allt laust vatn af yfirborði flakanna

Að lokum skal vigta flökin að nýju og skrá vigtina V2, sem er í þessu dæmi 480g

Útreikningur: V1-V2/V1 x 100 = % íshúð (515 – 480)/515 x 100 = 6,8%