Smábátar

Afli smábáta vegur þungt í heildaraflamagni og aflaverðmæti landsmanna.  Bátar í þessum útgerðaflokki veiddu til dæmis rúmlega 80 þúsund tonn á kvótaárinu 2011/12.

Sökum þess að útgerðamynstur og aðstaða um borð í smábátum er öðruvísi en hjá stærri bátum þá eru helstu áhersluatriði er snúa að aflameðferð í mörgum tilvikum sértæk fyrir smábátaflotann.  Af þeim sökum hefur Matís, í góðu samstarfi við Landssambandi smábátaeigenda, leitast sérstaklega við að miðla til smábátasjómanna upplýsingum og fræðsluefni er snúa að aflameðferð og tengdu efni. Staðið hefur verið fyrir námskeiðum, bæklingum og einblöðungum dreift; auk þess sem smábátasjómenn hafa verið hvattir til að leita upplýsinga hjá Matís.

Sumarið 2011 stóð Matís og LS fyrir námskeiðum fyrir smábátasjómenn á þrettán stöðum umhverfis landið þar sem farið var yfir ýmiss grundvallaratriði er snúa að aflameðferð.  Á námskeiðunum kom fram mikill áhugi meðal smábátasjómanna á að fræðast um rétta meðferð afla, hvaða reglugerðir þurfi að hafa í huga, hvað liggi að baki því að ein aðferð sé betri en önnur o.s.frv. Í framhaldi af áðurnefndu námskeiði var ákveðið að koma upp þessari netsíðu þar sem birtar verða ýmsar upplýsingar sem eiga sérstakt erindi til smábátasjómanna.

Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís í síma 422 5107 eða í póstfangið jonas.r.vidarsson@matis.is