Viðauki 3 – Upphenging

Ein leið til að auka meyrni nautakjöts er að hengja skrokka upp á mjaðmabeini eða á sin í mjöðm (illosacral ligament) í stað hásinar eins og gert er í dag. Upphenging á mjaðmabeini er sumsstaðar í notkun erlendis t.d. er yfir 90% af öllum nautgripum á Írlandi hengt upp með þessum hætti og yfir 20% sláturhúsa í Noregi hafa tekið þessa aðferð upp. Svíþjóð er einnig að innleiða þessa aðferð í sínum sláturhúsum og hún er í notkun í BNA og Ástralíu. Í íslenskri rannsókn (Samanburður á alíslenskum, Angus×íslenskum og Limósín×íslenskum nautgripum. II – Slátur- og kjötgæði) þar sem borin voru saman kjötgæði Angus og Limosine blendinga við íslensk naut, kom í ljós að íslensku nautin gáfu af sér seigara kjöt. Þess vegna þarf að leita allra ráða til að auka meyrni íslenska nautakjötsins.

Eftir slátrun á dauðastirðnun sér stað í öllum sláturskrokkum þegar vöðvar dragast saman þar til orkuefni (glýkógen og ATP) vöðvans eru uppurin. Ef vöðvar eru mjög slakir þegar dauðastirðnun á sér stað þá dragast þeir mjög mikið saman og mikil hætta er á að kjötið verði seigt og meyrni ekki við geymslu. Þegar skrokkur er hengdur upp á mjaðmabeini strekkist á helstu vöðvum á afturhluta dýrsins þar sem fætur eru í 90 gráðu stöðu. Það að þessir vöðvar eru strekktir þegar dauðastirðnun á sér stað kemur í veg fyrir að þeir dragist mikið saman. Þessir vöðvar verða því mun meyrari en sömu vöðvar sem koma af skrokki sem hengdur hefur verið upp á hásin.

Erlendar rannsóknir sýna að það má ná allt að 20% aukningu í meyrni í stóru vöðvunum auk þess að aðferðin flýtir mjög fyrir meyrniferlinu. Hvorug upphengiaðferðin hefur áhrif á framhluta skrokksins. Upphenging á mjaðmabeini er mjög einföld leið til að auka meyrni nautakjöts og krefst í raun ákaflega lítils vinnuframlags til viðbótar við hefðbundna slátrun þar sem einungis þarf að halda skrokkhlutum uppi með talíu meðan skipt er um upphengiaðferð. Þar að auki sína rannsóknir að nýting einstakra vöðva eykst allt frá 2 til 10% á afturhluta skrokksins.

Matra stóð fyrir rannsókn á áhrifum þessarra tveggja upphengiaðferða á meyrni íslensks nautakjöts (Einföld leið til að auka meyrni nautakjöts) þar sem borin voru saman meyrni og útlit vöðva af skrokkhelmingum sem annars vegar höfðu verið hengdir upp á mjaðmabeini og hins vegar á hásin. Mælingar á meyrni voru gerðar með skynmati, áferðarmælingum og mælingum á lengd s.k. sarkómera (samdráttareining vöðvans). Í íslensku rannsókninni (Einföld leið til að auka meyrni nautakjöts) þá reyndust hryggvöðvi, innra læri og ytra læri vera mun meyrari en sömu vöðvar eftir hásinaupphengju. Þetta voru samhljóða niðurstöður úr skynmati og áferðamælingum sem að auki sýndu að kjötgæðin voru mun jafnari úr upphengingu á mjaðmabeini en hásinaupphengju. Einnig kom í ljós að lengd sarkómera vöðva úr upphengingu á mjaðmabeini var á bilinu 2.4 til 3.1 míkrómetar en ávallt minni en 2 míkrómetrar úr hásinaupphengju. Samkvæmt fræðunum þá er sarkómerulengd undir 2 míkrómetrum talin leiða til þess að kjöt verði seigt.