Áhöld

Góður útbúnaður er undirstaða þess að hægt sé að standa mannúðlega að meðferð og slátrun búfjár, en hann er lítils virði ef ekki fylgir rétt handbragð og hugarfar.

Pinnabyssa
Pinnabyssa er útbúin með pinna sem rekinn er út úr hlaupi byssunnar inn í heila skepnunnar (sjá 10. mynd). Pinninn er knúinn af þrýstilofti eða af púðurskoti og þarf að miða stærð skotsins við stærð dýrsins. Skepnurnar eru deyddar með þessari aðferð. Hálsskurð eða stungu skal framkvæma sem fyrst eftir deyðingu. Sláturdýri skal blæða út í minnst 30 sekúndur áður en afhausun eða önnur vinna við dýrið hefst.

Einkenni þess að deyðing með pinnabyssu hafi tekist eru:

· dýrið fellur strax og reynir ekki að standa upp,
· dýrið og allir vöðvar stífna,
· öndun hættir
· augnhreyfingar hætta.

Pinnabyssur þarf að hreinsa skipulega og halda vel við.


10. mynd. Skotstaðir pinnabyssu. A og B: Nautgripir, C: Sauðfé, D: Svín, E: Geitur og F: Hross

Raflostbúnaður
Sláturdýr eru svipt meðvitund með því að leiða rafstraum gegnum heila þeirra. Tvær aðferðir eru einkum notaðar. Annars vegar svokölluð haus – haus aðferð (heilaraflost) og hins vegar haus – bak aðferð (heila-hjartaraflost). Fyrrnefnda aðferðin er algengust og eru þá sett rafskaut sitt hvoru meginn á haus skepnunnar svo straumurinn fari gegnum heilann. 11. mynd sýnir staðsetningu rafskauta á svínum og lömbum. Á hryndum kindum skulu rafskautin sett þétt aftan við hornin. Sé straumstyrkurinn, í haus-haus aðferð, nægjanlegur missir dýrið meðvitund og finnur ekki sársauka. Í síðarnefndu aðferðinni eru rafskaut sett bæði á haus og aftur á bak (síðu eða framfót) á dýrunum og stöðvast þá hjartað (sjá 12. mynd). Straumurinn þarf ætíð að fara gegnum heila skepnunnar til þess að hún missi meðvitund og finni ekki sársauka, sama hvor aðferðin er notuð.

11. mynd. Staðsetning rafskauta á svínum og lömbum þegar notuð er
haus-haus aðferð við rafdeyfingu. Á hyrndum kindum skulu rafskautin
sett þétt aftan við hornin.
12. mynd. Staðsetning rafskauta þegar beitt er haus-bak
aðferð við rafdeyfingu svína.


Mikilvægt er að dýrið sé hálsskorið eða stungið og því þannig látið blæða út, svo það deyi. Annars getur það rankað við sér aftur og fundið sársauka. Búnaður til deyfingar með raflosti skal vera þannig gerður að viðnám mælist sjálfkrafa og straumi ekki hleypt á nema tryggt sé að lágmarksstraumur berist til deyfingar dýranna. Búnaðurinn skal vera með mælum eða ljósum sem gefa til kynna að hann starfi eins og til er ætlast. Nota skal búnað með stöðugum straum (amper) en með breytilegri spennu (volt). Spennan á að vera breytileg eftir stærð og viðnámi dýrsins. Stöku sinnum sést beinbrot í svínum eftir rafdeyfingu og stafar það oft af of miklum straumstyrk.

Straumstyrkurinn skal vera 1,3 A fyrir svín og 1,0 A fyrir sauðfé og geitfé, 120 mA fyrir hvern kjúkling, 150 mA fyrir kalkún og 130 mA fyrir endur og gæsir og nota skal riðstraum með 50 riða tíðni. Ef tíðnin er höfð hærri er hætta á að dýrið missi ekki meðvitund við raflostið. Réttur straumstyrkur skal nást innan 0,5 sekúndna eftir að straumi er hleypt á og haldast í minnst 3 sekúndur. Einkum við deyfingu á sauðfé er nauðsynlegt að auka leiðni með því að bleyta húð og ull með saltvatni. Varabúnaður, pinnabyssa, þarf ætíð að vera tiltæk í banaklefa ef annar búnaður bregst. Raflostbúnað þarf að hreinsa skipulega og halda vel við.

Dýrategund Lágmarksstraumur
Svín 1,25 A
Sauðfé 1,0 A
Kjúklingar 120 mA
Kalkúnar 150 mA
Endur og gæsir 130 mA

Raflost

Lífeðlisfræðilega má skipta afleiðingum raflosts í tvö tímabil. Það fyrra er stjarfi (=tonic phase) en þá stífnar dýrið og fellur til hliðar. Stjarfi stendur í um 12 sekúndur en er mismunandi langur eftir straumstyrk. Það seinna er krampi (= clonic phase) þar sem fætur kippast kröftuglega til. Afgerandi er að straumstyrkur sé nægilegur til að stjarfinn standi ekki of stutt. Nauðsynlegt er að hálsstinga dýrið strax, þ.e. áður en kramparnir byrja. Þetta þýðir að hálsstinga þarf innan 15 sekúndna. Ef dýrið fer í krampa þá er velferð bæði dýrs og starfsmanna í hættu. Ef rétt er að raflosti staðið missir dýrið snarlega meðvitund og sársaukaskyn. Þarna er straumstyrkur afgerandi. Raunin er hinsvegar sú að töluvert er um að skautin séu ekki rétt staðsett, að ekki sé nægur straumstyrkur notaður, að leiðnin á milli rafskauta og húðar sé ónóg og að rafskaut séu sett oftar en einu sinni á dýrið. Ef straumur fer oftar en einu sinni í dýr þá eykur það álag á frumu- og æðakerfi og því er meira um blæðingar sem veldur rýrnun kjötgæða. Auk þess er þannig meðhöndlun algjörlega óásættanleg frá sjónarhorni dýraverndar.

Aldrei má hleypa straumi á rafskaut um leið og þau eru sett á dýrið. Það er mjög mikilvægt að staðsetja rafskautin vel á dýrinu áður en straumi er hleypt á. Annað er ill meðferð á dýri og hætta á blæðingum í kjöti eykst verulega. Svín eiga helst ekki að hrína þegar þau fá raflost, ef það gerist oft er ástæða til að yfirfara útbúnað og handtök starfsfólks. Þegar rétt er staðið að deyfingu með raflosti þá finnur dýrið ekki til. Ef straumur er ónógur eða ef straumur fer ekki í gegnum heilann þá finnur dýrið mikinn sársauka við raflostið.

Þar sem dýr eru rekin inn í banabox og ekki skorðuð af á færibandi er hægt að nota blöndu fyrrnefndra aðferða þ.e. bæði heila- og hjartaraflost. Þá er fyrst notuð haus-haus aðferð (heila/hjarta-raflost) og strax á eftir haus-bak aðferð (hjartaraflost) þegar dýrið er enn í stjarfa. Með þessu er hægt að framkvæma hálsstungu fyrr og jafnframt getur dregið úr blæðingum í kjöti ef þær eru vandamál.

Einkenni þess að rafdeyfing sauðfjár og svína hafi tekist eru:

· Dýrið stífnar upp.
· Öndun hættir. Mögulegt er að dýrið sýni ósjálfráð viðbrögð s.s. að kúgast eða taka andköf og er það talið í lagi ef um einstök viðbrögð er að ræða. Taktbundin öndun á hinsvegar ekki að sjást.
· Ekki á að heyrast hrín / jarm frá svíni / sauðfé.
· Höfuðið reigist aftur
· Þegar dýr hefur verið hengt upp eiga augnhreyfingar ekki að sjást. Eftir 20 til 30 sekúndur á að athuga hvort augnhreyfingar sjást. Ef svo er þá hefur deyðingin ekki tekist sem skyldi.
· Eftir upphengingu hangir höfuð dýrsins lóðrétt niður og hálsinn er slakur. Tungan lafir út og eyru hanga slöpp niður.
· Útlimir geta hreyfst tilviljanakennt. En ef útlimur hreyfist mjög ákveðið og endurtekið við áreiti þá er mögulegt að dýrið sé að ranka við sér.
· Munurinn á haus-haus (heilaraflost) og haus-bak (heila/hjartaraflost) aðferð er sá að dýrið kippist meira til (kröftugri krampar sjást) þegar það hefur verið deyft með haus-haus aðferð (heila-raflost).
· Dýr eiga að vera meðvitundarlaus bæði meðan á stjarfa og krampa stendur.

Þegar 10 – 20 sekúndur eru liðnar frá raflosti minnkar stjarfinn og svokallað krampastig hefst. Mikilvægt er að hálskurður eða stunga sé framkvæmd áður en krampinn byrjar, þ.e. sem fyrst og mest 20 sekúndum að lokinni deyfingu. Sláturdýri skal blæða út í minnst 30 sekúndur áður en afhausun eða fláning/hárbyrsting á því hefst.

Alifuglar eru hengdir upp á færiband í rökkvuðu vinnurými og flytjast þannig í gegnum sjálfvirkan búnað sem deyfir fuglana með raflosti. Rafstraumur er leiddur gegnum fuglana milli vatnsbaðs sem haus fuglanna snertir og færibands sem flytur fuglana. Tryggja þarf að allir fuglar séu deyfðir og fari gegnum blóðgun. Litlir fuglar ná stundum ekki niður í rafnmagn / hníf og fara þá lifandi í reytara. Slíkt er með öllu óásættanlegt.

Einkenni þess að deyfing alifugla hafi tekist:

· Háls og haus fuglanna reigist aftur.
· Augu eru opin.
· Vængir liggja þétt að búk.
· Fætur eru útréttir og stífir.

Eftir fáeinar sekúndur slaknar á öllum vöðvum fuglanna og þá:

· Sést engin öndun.
· Sjást engin augnviðbrögð.
· Sjást stækkuð sjáöldur.