Aðferðir

DýrategundAðferðirDeyfing / deyðing
SauðféPinnabyssaDeyðing
SauðféRaflostDeyfing
NautgripirPinnabyssaDeyðing
HrossPinnabyssaDeyðing
SvínRaflostDeyfing
AlifuglarRaflostDeyfing

Sauðfé er deytt með pinnabyssu eða svipt meðvitund með raflosti áður en það er stungið til að láta því blæða út.

Nautgripir og hross eru deydd með pinnabyssu. Aflífun sláturdýra með kúlubyssum er orðin mjög sjaldgæf vegna þess að sú aðferð er talin hættuleg fyrir starfsfólk og ætti alls ekki að nota hana.

Svín eru almennt deyfð með raflosti hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt að aflífunaraðferð hefur áhrif á gæði svínakjöts. Víða erlendis, í stærri sláturhúsum, eru grísir deyfðir með koldíoxíði.

Alifuglar eru deyfðir með raflosti og deyddir með því að láta þeim blæða út eftir hálsskurð.

Halal / kosher slátrun
Hér á landi er ekki heimilt að skera dýr á háls við slátrun nema þau hafi fyrst verið deyfð eða deydd. Samkvæmt trúarsiðum strangtrúaðra múslima (halal slátrun) og gyðinga (kosher slátrun) má ekki aflífa sláturdýr áður en þau eru skorin á háls eða stungin til að láta þeim blæða út. Þegar notuð er haus – haus aðferð við raflostdeyfingu sauðfjár ranka kindurnar við sér aftur, ef þeim er ekki látið blæða út. Þessi aðferð uppfyllir kröfur íslenskra stjórnvalda um að sláturdýr séu meðvitundarlaus og finni ekki sársauka þegar þau eru hálsskorin og kröfur múslíma. Þessi aðferð er notuð í litlum mæli við halal slátrun á sauðfé hér á landi. Engin kosher slátrun er hér á landi.