Umræða

Mikill fjöldi hlekkja í virðiskeðju gámafisks gerir það að verkum að erfitt er að hvetja til úrbóta í heildarferlinu, því umbætur hjá einum aðila í keðjunni þurfa ekki endilega að skila sér í vasa hans.  Miklar sveiflur í framboði og eftirspurn leiða einnig til þess að erfitt getur reynst að sýna fram á fjárhagslega kosti þess að fylgja besta mögulega verklagi, því oft á tíðum fara verð og gæði ekki saman (sérstaklega þegar skortur er á framboði).  Í grundvallaratriðum eru þó allir hlekkir keðjunnar að keppa að sama markmiði, það er að stækka kökuna með því að tryggja meiri gæði á endavörunni, þannig að grundvöllur verði til að stækka sneið hvers og eins. 

Aukin samskipti og upplýsingagjöf milli allra hlekkja keðjunnar eykur möguleika manna til að taka upplýstar ákvarðanir sem leitt geta til lækkunar á kostnaði og aukins hagnaðar.

Allir þeir sem koma að virðiskeðju gámafisks frá Íslandi reyna eftir megni að skila af sér sem bestri vöru.  Það er hinsvegar ljóst að það er alltaf hægt að gera betur; sérstaklega ef keðjan er skoðuð í heild sinni, því að hún getur aðeins verið jafn sterk og veikasti hlekkurinn.