Veiðarfæri

Töluverður munur er á kjörhæfni og áhrifum mismunandi veiðarfæra á aflann.  Fiskur veiddur á línu eða handfæri er til dæmis að jafnaði ferskasta hráefni sem mögulegt er að fá, en holdastuðull er aftur á móti oftast hærri hjá fisk sem veiddur er í botnvörpu, dragnót eða net. 

Ekki verður reynt hér að meta kosti og galla mismunandi veiðarfæra, en þó er ljóst að veiðarfærum þarf að beita á réttan hátt ef hámarka á gæði hráefnisins.  Skipstjórnarmenn togskipa þurfa til dæmis að gæta þess að draga veiðarfærið ekki of lengi og takmarka aflamagn í hverju holi.  Helst þarf að ná að gera að öllum afla á meðan fiskurinn er enn lifandi, svo að hann nái að blóðtæma sig vel og þar að leiðandi skiptir aflamagn og lífsmark mjög miklu máli. 

Of mikið aflamagn getur einnig stuðlað að auknu losi þar sem þrýstingur á aflann þegar pokinn kemur upp skutrennuna getur orðið umtalsverður.  Ekki er hægt að alhæfa um hvað sé hagstæðasti togtíminn eða hvenær aflinn sé orðinn of mikill, þar sem þættir eins og veður, aðstaða um borð, hitastig sjávar o.fl. hefur áhrif, en þó er algengt að útgerðir leggi fyrir sína skipstjórnarmenn að toga ekki lengur enn þrjá tíma og taka ekki meira en fimm tonn í senn.