Neyðarslátrun

Neyðarslátrun kallast það þegar dýr er aflífað utan sláturhúss, samkvæmt ákvörðun dýralæknis, vegna slyss eða af öðrum ástæðum og gert er að dýrinu í sláturhúsi og gera má ráð fyrir að afurðirnar verði nýttar til manneldis. Dýrið skal heilbrigðisskoðað af dýralækni áður en það er aflífað. Dýrið skal deytt, stungið og blóðtæmt á staðnum. Síðan skal það flutt eins fljótt og auðið er í sláturhús á viðurkenndu flutningstæki. Innanúrtaka skal framkvæmd eigi síðar en þremur klst. eftir aflífun. Dýrinu skal fylgja yfirlýsing dýralæknis sem fyrirskipaði aflífun, þar sem a.m.k. skal koma fram ástæða neyðarslátrunar og lyfjagjöf og skal hún afhent kjötskoðunarlækni. Við heilbrigðisskoðun í sláturhúsi skal framkvæmd sýklarannsókn á afurðunum.

Á Íslandi er ekki hefð fyrir neyðarslátrun með þeim hætti sem lýst er hér en í reglugerð nr. 461/2003 eru ákvæði sem opna þann möguleika til að tryggja velferð slasaðra dýra og til að bjarga verðmætum.