Flutningar

Um leið og áhöfn veiðiskips hefur komið aflanum í gám er komið að hlutverki flutningsaðilans í virðiskeðjunni. Oft þarf að byrja flytja gámana innanlands með flutningabílum að næstu útskipunarhöfn, en þá eru það yfirleitt innanlandsflutningasvið skipafélaganna, það er að segja Landflutningar og Flytjandi, sem sjá um þann hluta flutningsins. Mikilvægt er að innanlandsflutningarnir gangi hratt fyrir sig og að allar áætlanir standist. Varast ber að geyma fisk í gámum á bryggjunni í lengri tíma, sérstaklega ef heitt er í veðri. Ef gámar þurfa að bíða á bryggjunni eftir næsta skipi þá er best að nota kæligáma og geyma þá í skugga.

Tvö skipafélög stunda áætlanasiglingar milli Íslands og Bretlands í viku hverri.  Siglingatíminn er að öllu jöfnu þrír til fjórir dagar, þar sem lagt er af stað frá Reykjavík á miðvikudögum og fimmtudögum, stoppað í Vestmannaeyjum og í Færeyjum á leiðinni, og komið til Immingham á sunnudögum og mánudögum. Þaðan halda svo skipin áfram til meginlands Evrópu, þar sem þau skipa upp farmi sínum einum til tveim dögum síðar.  Mikilvægt er fyrir kaupendur að fá upplýsingar um tafir frá siglingaáætlun, svo að þeir geti haft færi á að nálgast hráefni eftir öðrum leiðum.  Skipafélögin reyna bæði að láta vita af töfum á heimasíðum sínum, en einnig leitast umboðsaðili útgerðanna við að upplýsa sína viðskiptavini um fyrirsjáanlegar tafir.  Þess ber hins vegar að geta að oftast er ekki útséð með slíkar tafir fyrr en á laugardögum eða sunnudögum og þá er í raun lítið sem kaupendur geta gert til að bregðast við hráefnisskorti.  Auk þessara tveggja leiða sem Eimskip og Samskip bjóða uppá er einnig hægt að flytja fisk til Evrópu með skipum félaganna sem sigla frá austurlandi. Skip frá Eimskip siglir til dæmis milli Reyðarfjarðar og Rotterdam í hverri viku, og skip frá Samskipum fara sömu leið á tíu daga fresti. Einnig er mögulegt að flytja fisk með Norrænu frá Seyðisfirði til Danmerkur. 

Þegar flutningaskipin leggjast að bryggju í Immingham er gámunum skipað upp og þeim ekið um 15 km leið til fiskmarkaðarins í Grimsby, eða um 50 km leið á fiskmarkaðinn í Hull.  En þar sem nær allt framboðið á íslenskum fiski kemur til Bretlands í byrjun vikunnar reynir umboðsaðilinn að treina framboðið fram eftir vikunni.  Þetta þýðir að vísu að fiskurinn þarf að bíða á bryggjunni í einn til tvo auka daga, sem hefur að sjálfsögðu ekki góð áhrif á gæði hráefnisins, en þetta er hins vegar eina færa leiðin til að tryggja stöðugt framboð alla vikuna.  Að þessum sökum er mikilvægt að umboðsaðilinn viti aldur hráefnisins sem í gámunum er, svo að hann geti selt elsta fiskinn fyrst.

Hlutverk flutningsaðilans er meðal annars að:

  • Láta vita af töfum eins fljótt og auðið er
  • Skrá og merkja gáma og innihald þeirra
  • Tengja og fylgjast vel með kæligámum (skráning)
  • Forðast að fiskigámar séu hafðir í beinu sólarljósi