Aðstaða

Í sauðfjár- og stórgripasláturhúsum eru svokölluð banabox, sem sláturdýr eru færð inn í eitt í einu. Skepnurnar eru með þeim hætti skorðaðar af svo unnt sé að deyða þær með öruggum hætti. Æskilegt er að sérstakur viðbótarbúnaður sé í banaboxi fyrir stórgripi til að skorða haus gripanna. Slíkur búnaður tryggir bæði mun öruggari aflífun og vinnuaðstöðu.

Þar sem raflosti er beitt við deyfingu sauðfjár flytjast kindurnar í V-laga færibandi að starfsmanni sem deyfir þær. Strax að lokinni deyfingu með raflosti velta kindurnar út úr færibandinu niður á borð þar sem þær eru stungnar eða hálsskornar svo þeim blæði út og þær deyi.

Svín eru oftast rekin nokkur saman inn í litla stíu þar sem þau eru deyfð. Þetta er ekki fullnægjandi aðstaða því dýrin eru ekki nægjanlega vel skorðuð og fá því iðulega raflost tvisvar sinnum áður en deyfing tekst. Á einum stað hérlendis hafa verið útbúin banabox líkt og fyrir stórgripi.

Sláturdýr á að aflífa tafarlaust þegar þau hafa verið rekin í banabox eða færiband og mega ekki bíða þar í hléum.