Skýrsla um vinnslu fiskpróteina í fæðubótarefni

Próteinduft
Fæðubótarefni úr sojabaunum

Eitt helsta sóknarfæri íslensks sjávarútvegs felst í að auka verðmæti úr því hráefni sem kemur úr sjó. Með því að vinna fæðubótarefni úr fiski er hægt að auka verðmæti hráefnisins verulega, ekki síst úr vannýttum tegundum sem núna eru alla jafnan ekki nýttar til manneldis eða aukaafurðum og tilfallandi hráefni við hefðbundna vinnslu á matvælum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Matís.

Í skýrslunni Fiskprótein sem fæðubótarefni, er fjallað um þá möguleika sem hugsanlega felast í því að vinna stærri hluta sjávarfangs í verðmætar afurðir, sérstaklega vinnslu fiskpróteina til notkunar í hinum ört vaxandi fæðubótar- og heilsuvörumarkaði.

Markaður fyrir fæðubótarefni og heilsuvörur hefur vaxið gríðarlega á sl. árum og slíkar vörur eru nú stærri hluti af næringu fólks en áður. Fæðubótarefni eru matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði. Prótein í fæðubótaefnum og heilsuvörum eru aðallega unnin úr mjólkur- og jurtapróteinum.

Í skýrslu Matís er komist að þeirri niðurstöðu að næringarsamsetning fiskpróteina sé ákjósanleg sem fæðubótarefni, en þróun og rannsóknir til að framleiða þau með þeim eiginleikum sem þykja hvað ákjósanlegastir fyrir fæðubótarefni hafi verið ábótavant hingað til.  Með því að vinna fæðubótarefni úr fiski væri hægt að auka verðmæti hráefnisins. Markmið verkefnisins var að þróa fiskprótein sem nýttust sem fæðubótarefni.

Eins og sést á myndinni skila sérhæfðar og þróaðar afurðir meiri hagnaði en almennar og minna unnar vörur. Líkur benda til þess að hagnaður aukist eftir því sem afurðirnar eru meira unnar. Þeim mun þróaðri sem vörurnar eru, þeim mun verðmætari verða þær og með hverju skrefi sem vörurnar nálgast lyfjamarkað, eykst verðmæti þeirra.

27/5/2008