Matarkistur lands og sjávar eru gjöfular en um leið viðkvæmar náttúruauðlindir sem umgangast ber með gát. Því þarf að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra, stemma stigu við hvers konar mengun og efla hreinlæti við úrvinnslu og eftirlit á efnainnihaldi afurða.
Heilnæmar afurðir
Til að hafa um alla framtíð hámarksafrakstur af auðlindum hafsins sem og öðrum auðlindum þarf að nýta þær á hagkvæman hátt. Það markmið næst einungis með því að tryggja sjálfbærni, sporna gegn mengun og halda á lofti hollustu og heilnæmi allra afurða. Íslendingar munu beita sér fyrir aðgerðum til að tryggja heilnæmi afurða og miðla upplýsingum um slíkt til neytenda.
Upplýsingar um öryggi matvæla eru veittar á vefsvæði Matís ohf. Niðurstöður rannsóknaverkefna um öryggi matvæla eru kynntar í skýrslum og greinum á vefsíðunni. Umfjöllun um öryggi matvæla nær bæði til skaðlegra örvera og óæskilegra efna (aðskotaefna eða mengandi efna). Matvæli þurfa að vera örugg fyrir neytendur með tilliti til beggja þessara þátta.
Skaðlegar örverur
Matareitranir og matarsýkingar af völdum örvera hafa, ásamt eitrunum vegna aðskotaefna í matvælum, samheitið matarsjúkdómar. Upplýsingar um skaðlegar örverur og matarsjúkdóma er að finna á vefsvæði Matvælastofnunar.
Tilkynna á heilbrigðiseftirliti ef grunur er á matareitrun eða matarsýkingu í heimahúsi eða annarsstaðar.
Aðskotaefni og óæskileg efni
Á vefsvæðum Matís ohf og Matvælastofnunar er að finna almennar upplýsingar um aðskotaefni. Auk þess þar er að finna pistla um einstök efni, t.d. um díoxín.
Hægt er að leita að upplýsingum um þungmálma auk næringarefna í ÍSGEM gagnagrunninum hjá Matís. Við áhættumat er nauðsynlegt að hafa upplýsingar um bæði næringarefni og aðskotaefni eins og þungmálma og vega saman áhrif þessara efna.
Matís rekur líka vefinn Seafoodnet á ensku um öryggi sjávarafurða. Á vefnum eru upplýsingar um aðskotaefni í sjávarafurðum, skýrslur, kynningarefni og tenglar á upplýsingar í öðrum löndum.
Mælingar
Mælingar á örverum og efnum fara fram hjá Matís ohf.