Korn

Innlent korn til manneldis
Bygg (Hordeum vulgare L.) hefur verið ræktað í yfir 10.000 ár. Bygg er sú korntegund sem þarf stystan vaxtartíma til að ná þroska og því er það ræktað á norðlægum slóðum. Hér á landi hefur áhugi á nýtingu innlends korns til matvælaframleiðslu aukist á síðustu árum. Íslenskt bygg er athyglisvert hráefni en það býður upp á marga möguleika í matvælaiðnaði og matargerð. Innlent bygg hefur náð fótfestu í bakaríum landsins eins og keppni um brauð ársins 2009 á vegum fyrirtækisins Kornax ber með sér. Brauð úr íslensku byggi er nú fáanlegt í ýmsum bakaríum landsins. Tækifæri liggja í notkun byggsins í sérvörur vítt og breitt um landið, svokallaðar héraðskrásir. Ferðaþjónustan getur notið góðs af slíkri þróun.  

Matkorn er verðmætara en fóðurkorn og því er eftir nokkru að slægjast fyrir kornbændur að koma hluta af uppskeru sinni til matvælaframleiðslu. Hafa þarf í huga að meiri kröfur eru gerðar til matbyggs en fóðurbyggs. Settar hafa verið fram gæðakröfur fyrir bygg til matvælaframleiðslu. Gæðakröfurnar voru unnar hjá Matís ohf og Landbúnaðarháskóla Íslands í verkefni sem  Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkti. Gæðakröfurnar eru hugsaðar sem viðmiðun í viðskiptum þannig að bæði kaupendur og seljendur hafi sama skilning á vörunni.

Kennsluheftið í heild sinni má finna hér.

Fræðsluefnið er gefið út með stuðningi Starfsmenntaráðs. Skýrslur sem vitnað er til í heftinu má finna á heimasíðu Matís, www.matis.is/utgafa/matis/skyrslur/

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal.