Sauðfé

Fyrir flutning

Almennt er ekki mælt með blöndun dýra úr ólíkum hópum rétt fyrir slátrun. Sauðfé virðist þó minna viðkvæmt fyrir þessu en flestar aðrar búfjártegundir, sérstaklega lömb sem ekki hafa náð kynþroska. Þegar líður að fengitíð verður árásargirni meiri og er þá sjálfsagt að halda kynjunum aðskildum.

Eftir því sem féð hefur verið meðhöndlað meira er það rólegra og auðveldara að reka það milli hólfa og á bíl. Vigtun og önnur skoðun á lömbum fyrir slátrun er því ekki einungis aðgerð til að meta sláturhæfni lambanna heldur venur slíkt lömbin við meðhöndlun og dregur þar með úr streitu þegar kemur að slátrun.

Réttum og hólfum sem féð er í áður en það er rekið á sláturbíl er mikilvægt að halda þurrum og hreinum. Einkum þarf að gæta að því að almenningur og rekstrargangar séu hreinsaðir reglulega og malarborn

ir eftir þörfum. Sláturfé sem gengur á grænfóðurbeit þarf einnig hafa aðgang að úthaga eða túni og það þarf að taka af grænfóðurbeitinni eigi síðar en sólarhring fyrir flutning í sláturhús. Sjáist skita eða önnur óhreinindi á sláturfé er óheimilt að senda það í sláturhús fyrr en féð hefur hreinsað sig.

Svelti sláturfjár í tiltekinn tíma fyrir slátrun er æskilegt til þess að auðvelda vinnu í sláturhúsi og minnka líkur á óhreinindum. Þegar líður að slátrun þarf bóndinn að afla sér upplýsinga um hvenær slátrun muni fara fram, svo ekki sé verið að svelta skepnurnar að nauðsynjalausu. Óheimilt er skv. reglugerð nr. 60/2000 að hafa fé án fóðurs fyrir slátrun lengur en tvo sólarhringa, og óæskilegt er að sveltitími sé meira en 1 sólarhringur. Allar skepnur ættu að hafa aðgang að vatni eins lengi og kostur er því áreynsla í kringum flutninginn veldur talsverðri uppgufun er síðan getur leitt til vatnsskorts. Í erlendum rannsóknum hefur rýrnun fallþunga eftir mislangan fóður- og vatnsskort mælst. Því er það augljóslega stórt atriði bæði gagnvart velferð skepnunnar og hagkvæmni framleiðslunnar að sveltitími sé hæfilegur, hvorki of né van.


Sauðfé sem er veikt, slasað, komið að burði eða nýborið ætti ekki að flytja í sláturhús. Skepnur geta þó verið í því ástandi að flutningur sé ekki æskilegur en þó mögulegur með sérstakri aðgæslu og aðbúnaði.

Rekið á vagn
Þó sauðfé sé oftast létt á fæti er æskilegt að braut/sliskja úr rétt og inn í sláturbíl sé ekki alltof brött m.a. vegna þess að kindin sér þá verr hvað er framundan og gengur þess vegna tregar inn í bílinn. Það er sauðfé eðlislægt að leita í átt að ljósi þar sem það þýðir frelsi. Best er því að hliðar brautarinnar sem féð gengur á inn á vagninn séu þétt klæddar en að birta sjáist við enda brautarinnar. Því er æskilegt að góð lýsing sé inni í sláturbílnum. Ef hliðar brautarinnar eru lélegar eða engar er meiri hætta á að féð slasi sig þegar það er rekið á bílinn. Til að forðast mar og aðra áverka þarf að ganga úr skugga um að hvergi séu hvassar brúnir sem féð getur slasað sig á og einnig þarf að forðast að grípa í ull á þann hátt að skaði geti hlotist af. Ef þverslár eru yfir sliskju verða þær að vera í það mikilli hæð að ekki sé hætta á að féð stökkvi upp í þær og merji sig á hrygg.

Sauðkindin er mikil hópsál og eltir því ein kind aðra ef ekkert truflar. Fé á því að geta runnið nokkuð greiðlega upp á vagn án alls hamagangs ef aðstaða er góð, sérstaklega ef kindurnar eru ekki alveg óvanar meðhöndlun.

Mikilvægt er að gönguleið sauðfjár frá stíu/rétt og upp á vagn/bíl sé vel úr garði gerð. Sliskja (rampi) má ekki vera hál, halli hennar ætti ekki að vera meiri en 20% (11°) og hliðar hennar ættu að vera heilar, þ.e. ógagnsæjar og ekki með framstandandi nöglum, bitum eða öðru sem getur skaðað féð.

Rými
Rými, á hvern grip, í flutningi er einn mikilvægasti þátturinn er varðar velferð þeirra. Rýminu má skipta í tvennt: Annars vegar flatarmál á grip sem mælir það gólfrými sem hverjum grip er ætlað og hins vegar lofthæð sem getur haft veruleg áhrif á gæði loftræstingar – sérstaklega í flutningavögnum sem eru á mörgum hæðum. Almennt má segja að ef flutningavögnum er varlega ekið þá sé gott að rými sé sem mest. Ef hins vegar keyrt er hratt eða glannalega getur lítið rými dregið úr meiðslum á dýrunum. Ekki er þó mælt með þeirri aðferð. Of lítið rými getur leitt til þess að fé treðst undir, merst og drepst.

Þeir þættir sem hafa áhrif á rýmisþarfir sauðfjár eru einkum eftirfarandi:

· Líkamsþungi: því stærri sem skepnan er, því meira pláss þarf hún.
· Ull: Er skepnan í ullu, og hve þykk er ullin? Órúið fé er talið þurfa 15-25% meira rými en rúið fé.
· Hyrnt/kollótt: Stundum er gert ráð fyrir eilítið meira rými fyrir hyrnt fé en kollótt.
· Hitastig: Ef mjög heitt er úti (sem er sjaldnast vandamál hérlendis) er enn hættulegra en ella að ætla fénu of lítið rými vegna hættu á ofhitnun.
· Hegðun fjárins: Sauðfé hefur ekki mikla tilhneigingu til að leggjast fyrstu 3-4 klst. ferðarinnar en eftir það fer það að leggjast í vaxandi mæli. Því er eðlilegt að gera ráð fyrir auknum rýmisþörfum ef flutningurinn tekur meira en 3-4 klst.

Í Evrópu hefur m.a. verið notuð eftirfarandi jafna til að reikna út rýmisþarfir fyrir rúið fé sem er á ferð í meira en 4 klst.:

Ef ferðin tekur minna en 4 klst. er notaður stuðullinn 0,021 í jöfnuna í stað 0,026.

Ef við svo áætlum að 20% meira pláss þurfi fyrir órúið fé þá lýsir eftirfarandi 4. tafla áætluðum rýmisþörfum fyrir sauðfé á fjárbíl/vagni miðað við að flutningur taki annars vegar minna en 4 klst. og hins vegar 4 klst. eða meira. Þörf er á auknu rými ef féð er mjög þreytt og/eða kemur beint af haga.

4. tafla. Rýmisþarfir sauðfjár.


Skipulag ferðar
Tillögur sambands evrópskra dýralækna gera ráð fyrir að ef ferðin tekur meira en 12 klst. þurfi að brynna fénu og fóðra. Samkvæmt reglugerð um aðbúnað sauðfjár nr. 60/2000 er óheimilt hérlendis að vera með sláturfé á flutningapalli lengur en 8 klst. án hvíldar. Flutningstíminn einn og sér er þó ekki einhlítur mælikvarði á það álag sem dýrin verða fyrir, því aðbúnaður gripanna, gerð vegarins, fjöldi hemlana, biðtímar, ökuleikni bílstjórans og fleira skiptir ekki síður máli. Sýnt hefur verið fram á að ferð eftir vondum vegum veldur auknu álagi á sauðfé, m.a. hefur þetta komið fram í hækkuðu sýrustigi í kjöti. Sama gildir um slæmt aksturslag.

Útbúnaður flutningatækis þarf að taka mið af þörfum og atferli sauðfjárins. Flutningspall skal skv. reglugerð nr. 60/2000 hólfa sundur með traustum grindum í stíur sem rúma allt að 12 kindur. Milligerði og hlið ættu ekki að vera undir 100 cm á hæð til að tryggja að gripir geti ekki stokkið yfir þær. Dyraumbúnaður þarf að vera traustur og öruggur. Við flutning umfram 50 km skal flutningspallur hólfaður sundur í miðju að endilöngu svo að engin stía nái um þveran flutningspall. Á flutningspall er heppilegast að nota grindur eða ristar en annars þarf að gera sérstakar ráðstafanir, svo sem með undirburði, til að hindra að pallurinn verði háll.

Loftræsting flutningatækisins skiptir miklu máli. Ef um er að ræða óeinangraða vagna geta þeir verið mjög kaldir á haustin og veturna en á heitum sumardögum getur orðið mjög heitt inni í vögnunum – sérstaklega þegar bíllinn stendur kyrr. Í öllum tilfellum þarf að vera hægt að loftræsta vagnana og það er best gert með loftgötum á hliðum og framenda vagnanna. Til að loftræstingin virki þarf að vera gott loftrými fyrir ofan féð; að lágmarki 20 cm fyrir ofan höfuð stærstu dýra.

Í reglugerð um aðbúnað sauðfjár nr. 60/2000 er nánar kveðið á um búnað flutningatækja sem ætluð eru til sauðfjárflutninga. Sú reglugerð nær til allra flutningatækja, hvort heldur er bíla með föstum palli eða fjárflutningavagna.

Við akstur að sláturstað er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að fé troðist undir. Mjög misstórar skepnur ætti ekki að hafa í sömu stíu, slíkt eykur hættu á troðningi.

Í sláturhúsi
Gólfefni í stíum þurfa að vera stöm og með grindum eða ristum. Milligerði og hlið í stíum ættu ekki að vera undir 100 cm á hæð til að tryggja að gripir geti ekki stokkið yfir þær. Ef um er að ræða kynþroska fé þarf að halda kynjunum aðskildum. Rekstrargangar í sláturhúsum eiga að vera með lokuðum hliðum og þannig útbúnir að féð merjist ekki við rekstur. Gólfflötur á að vera láréttur, stamur og laus við þröskunda og þrep. Ekki skal nota rafstafi við rekstur.

Sauðfé þarf að hafa aðgang að vatni á meðan það dvelur í stíum sláturhúsa.