Nautgripir

Fyrir flutning

Alla nautgripi ætti að ala við þannig aðstæður að þeir geti haldið sér hreinum og þurrum. Þetta er sérlega mikilvægt þegar líður að slátrun því sláturhúsum er heimilt að neita að taka við skítugum gripum (skv. reglugerð um slátrun og meðferð sláturafurða). Sláturleyfishafa er hins vegar óheimilt að senda gripi til baka séu þeir á annað borð komnir inn í sláturrétt. Sé gripur kominn þangað og sláturleyfishafi treystir sér ekki til að taka við honum, eða er meinað það af hálfu dýralæknis, fellur gripurinn óbættur.

Æskilegt er að nautgripir séu ekki fóðraðir síðustu 12 klst. fyrir slátrun, til að auðvelda verkferla í sláturhúsi og til að minnka líkur á að gripirnir ati sig út á leið í sláturhús. Þegar líður að slátrun þarf bóndinn að afla sér upplýsinga um hvenær gripunum verður slátrað, svo gripirnir séu ekki sveltir að nauðsynjalausu. Allir gripir eiga hins vegar að hafa aðgang að vatni eins lengi og kostur er, því áreynsla í kringum flutninginn veldur mikilli uppgufun sem getur leitt til vatnsskorts. Fullorðnir nautgripir þurfa allt að 40 lítra af vatni á sólarhring og kýr í nyt mun meira.

Nauðsynlegt er að gripir séu ekki fluttir til sláturhúss nema þeir séu í það góðu ástandi að þeir þoli flutninginn vel. Við þetta mat þarf að taka tillit til flutningsvegalengdar og aðbúnaðar á gripavagni.

Þó eru þrír hópar nautgripa sem alls ekki ætti að flytja:

· Kýr á síðustu þremur vikum meðgöngu.
· Kýr sem hafa fætt afkvæmi innan tveggja sólarhringa.
· Nýfæddir kálfar með blautan naflastreng.

Slösuðum eða mjög lasburða dýrum þarf að lóga heima í samráði við dýralækni.

Rekið á vagn
Nautgripir hafa mjög vítt sjónsvið, sem spannar um 300 gráður, en á hinn bóginn hafa þeir þrívíddarsjón á mjög takmörkuðu sviði (sjá 7. mynd). Þess vegna eiga nautgripir erfitt með að átta sig á hæðarmismun eða þrepum í gólfi og geta auðveldlega ruglað þeim saman við skugga eða litabreytingu í gólfinu. Þetta á sérstaklega við þegar gripirnir þurfa að fara um svæði sem þeir þekkja lítt. Vegna þessa skiptir lýsing gönguleiðar miklu máli fyrir það hversu vel gengur að koma nautgripum upp á gripavagn. Góð lýsing fækkar skuggum og gripirnir verða öruggari með sig. Annað atriði er hálka á gönguleiðum. Oft er hægt að draga verulega úr hálku á göngum með því að strá sagi eða sandi á gólfið. Það auðveldar rekstur og dregur úr slysahættu. Vatnspollar á gólfum gera þau hál, en geta einnig speglað ljósi og þannig blekkt fjarlægðarskyn gripanna. Nautgripum er illa við að ganga niður í móti og gönguleiðir út úr fjósinu ættu því að vera annað hvort sléttar eða halla lítillega upp í mót.

Best er ef hægt er að reka gripina í halarófu eftir gangi sem er með lokaðar hliðar. Þá er ekkert sem truflar gripina og þeir renna vel áfram. Mikilvægt er að forðast hamagang og at; nægjanlegt er að stýra gripunum áfram og best er ef hægt er að reka nokkra gripi saman.

Gönguleið nautgripa frá stíu og upp á gripavagn skal vera:

· slétt
· vel lýst
· ekki hál
· eins afmörkuð og hægt er

Rampinn (sliskjan) upp á gripavagninn ætti ekki að halla meir en 20% (jafngildir 11° horni rampans við gólf) og jafnvel ætti hallinn að vera minni ef um er að ræða kálfa eða veikburða gripi. Í stöku tilfellum má hallinn vera allt að helmingi meiri en aðeins ef um er að ræða gripi í góðu ásigkomulagi og rampa sem ekki er háll og með rimum með 20-30 cm millibili. Þá er æskilegt að breidd rampans sé á bilinu 75-120 cm þannig að gripirnir geti ekki snúið sér við á leiðinni upp.

7. mynd. Sjónsvið nautgripa

Ferðin
Rými á gripum í flutningi er einn mikilvægasti þátturinn er varðar velferð þeirra. Rýminu má skipta í tvennt: Annars vegar flatarmál á grip, sem mælir það gólfrými sem hverjum grip er ætlað og hins vegar lofthæð sem getur haft veruleg áhrif á gæði loftræstingar – sérstaklega í flutningavögnum sem eru á mörgum hæðum. Almennt má segja að ef flutningavögnum er varlega ekið þá sé gott að rými sé sem mest. Lítið rými eykur hættuna á að að gripir missi jafnvægið eða troðist undir – sérstaklega ef hratt er ekið.

Nautgripir á leið í sláturhús geta verið frá ungum kálfum upp í fullvaxin holdanaut. Þess vegna þurfa leiðbeiningar um rýmisþarfir að byggja á þunga gripanna. Eftirfarandi jöfnu má nota til að reikna rýmisþörf:

Í 3. töflu má sjá niðurstöður jöfnunnar fyrir mismunandi þunga gripi. Tekið skal fram að þessar viðmiðanir eiga einungis við ferðir sem vara minna en 5 klst. Í lengri ferðum þarf meira rými á grip.

3. tafla. Rýmisþarfir nautgripa.

Þungi á fætiÆskilegt rými á grip (m2)
500,30
1000,45
2000,75
3000,95
4001,15
5001,35
6001,55

Ekki ætti að binda nautgripi meðan á flutningi stendur, þar sem bundnir gripir eiga erfitt með að halda jafnvægi og geta þar að auki slasast illa ef þeir falla. Ef tjóður er of stutt geta gripirnir ekki lagst (né staðið upp ef þeir detta) og ef tjóðrið er of langt getur það flækst í fótum þeirra eða utan um háls. Í undantekningatilfellum má binda gripi sem eru vanir því að vera bundnir. Þetta á t.d. við þegar hætta er á að þessir gripir slasi aðra gripi í sama flutningavagni. Þegar þetta er gert þarf tjóðrið að vera sterkt og þannig gert að það skerist ekki inn í húð gripanna.


Fullorðnir gripir leggjast sjaldan meðan á flutningi stendur, en það kemur þó fyrir ef rými er nægjanlegt og undirlag þurrt. Kálfar leggjast hins vegar mjög gjarnan; 1-3 vikna gamlir kálfar liggja skv. rannsóknum u.þ.b. þriðjung flutningsvegalengdar (miðað við 5-6 tíma flutning). Þriggja mánaða gamlir kálfar liggja skemur eða um 14% tímans en eldri gripir liggja mjög lítið. Af þessu leiðir að þegar kálfar undir þriggja mánaða aldri eru fluttir, skal gæta þess að rými og undirlag geri þeim kleift að liggja án vandkvæða.

Loftræsting gripavagna skiptir miklu máli. Ef um er að ræða óeinangraða vagna geta þeir verið mjög kaldir á haustin og vetrum en á heitum sumardögum getur orðið mjög heitt inni í vögnunum – sérstaklega þegar bíllinn stendur kyrr. Í öllum tilfellum þarf að vera hægt að loftræsta gripavagna og það er best gert með loftgötum á hliðum og framenda vagnanna. Til að loftræstingin virki þarf að vera gott loftrými fyrir ofan gripina; að lágmarki 20 cm fyrir ofan höfuð stærstu dýra.

Öryggismál við flutning þurfa að vera í lagi. Það er nauðsynlegt að gera meiri kröfur til vagna sem notaðir eru til gripaflutninga en vagna sem notaðir eru til annarra flutninga. Gripaflutningabílar þurfa að vera þannig útbúnir að tryggt sé að gripirnir geti ekki slasað sig, m.a. þurfa gólf að vera stöm. Þá þarf að vera hægt að losa vagnana í neyðartilfellum, t.d. ef vagninn veltur.

Skipulag ferðar
Flutningstíminn einn og sér er ekki góður mælikvarði á það álag sem dýrin verða fyrir, því aðbúnaður gripanna, gerð vegarins, fjöldi hemlana, biðtímar, ökuleikni bílstjórans og brynning eða hvíldarstopp skipta ekki síður máli.

Ef aðstæður eru góðar byrja dýrin að slappa af nokkru eftir að ferð hefst og jafna sig eftir álagið sem oftast er tengt því þegar rekið er upp á vagninn. Tíðni hjartsláttar lækkar og magn streituhormóna lækkar. Ef rými er nægjanlegt og varlega ekið má búast við því að nautgripir fari að leggjast eftir 4-5 klst. akstur. Þetta er þó mjög einstaklingsbundið og fer einnig eftir aðstæðum.

Best er ef ferðin tekur það stuttan tíma að ekki sé nauðsynlegt að fóðra/brynna skepnunum en ef nauðsynlegt reynist að fóðra/brynna, þá er best ef hægt er að gera það án þess að reka gripina af vagninum. Það að reka gripi á vagninn og af honum veldur dýrunum miklu álagi og streitu og það ber að forðast. Nautgripir éta ekki eða drekka meðan ekið er þannig að nauðsynlegt er að stoppa til að fóðra/brynna. Taki ferð hins vegar minna en 8 klst. er ekki nauðsynlegt að brynna/fóðra nautgripum.

Ekki skal blanda saman einstaklingum sem ekki hafa gengið saman í stíu – sérstaklega ef það eru kynþroska naut. Kúm/kvígum og graðneytum skal heldur ekki blanda saman. Naut sem ekki hafa verið saman í stíu fyrir flutning reyna oft að slást í flutningavagni. Stundum er reynt að koma í veg fyrir þetta með því að hafa þröngt á þeim, en það er slæm aðferð. Í staðinn á flutningavagninn að vera með hólfum þannig að ókunnir gripir séu ekki saman.

Ungir kálfar (0-3 mánaða) haga sér öðruvísi en fullorðnir nautgripir að því leyti að þeir rekast verr í hóp. Þess vegna er oft heppilegt að taka einn kálf í einu upp á flutningavagn. Þegar smákálfar eru fluttir til slátrunar þarf aðbúnaður að vera góður sama hvert flutningstækið er. Smákálfar þurfa gott undirlag og rými til að geta lagst niður á meðan á flutningi stendur. Smákálfar þola illa kulda og dragsúg og nauðsynlegt er að taka tillit til þess við misjöfn veðurskilyrði.

Nautgripir sýna greinileg merki um þreytu eftir 8-12 klst. ferðalag. Kálfar þola langan flutning verr en eldri gripir. Með hliðsjón af þessu ætti flutningur nautgripa ekki að taka lengri tíma en 8 klst. án hvíldar. Ef ljóst er að flutningi lýkur innan 10 klst. má þó framlengja tímann.

Í sláturhúsi

Áströlsk rannsókn sýndi að ríflega 40% af marblettum á sláturskrokkum mátti rekja til aðbúnaðar og meðhöndlunar í sláturhúsinu sjálfu.

Þegar sláturgripir koma í sláturhús er líklegt að þeir séu þyrstir, hræddir og þreyttir eftir flutninginn. Aðstaðan sem bíður gripanna í sláturhúsinu er í flestum tilfellum mjög ólík því sem þeir eru vanir hvað varðar lykt, hljóð og gólfgerðir. Til viðbótar kemur lykt af og í sumum tilfellum samneyti með ókunnum gripum. Aðstaðan í sláturhúsunum þarf að taka mið af þessu og því hvernig nautgripir skynja umhverfi sitt.

Almennt ættu gripir að dvelja sem styst í réttum sláturhúsa og helst ekki yfir nótt. Ungkálfar, naut og kýr á fyrrihluta mjaltaskeiðs eru viðkvæm fyrir volki og ættu því alltaf að hafa forgang í slátrun. Ungkálfum þarf að tryggja mjúkt og þurrt legusvæði og þeim skal slátrað samdægurs eða fyrstum að morgni.

Gripir skulu teknir af gripavagni eins fljótt og mögulegt er. Rampinn af vagninum þarf að uppfylla sömu kröfur og áður er getið um. Best er ef gripirnir geta gengið beint inn á gólf. Mikilvægt er að rampinn hafi heilar hliðar til að verja gripina falli og koma í veg fyrir að umhverfið trufli þá.

Stíur
Fjöldi rannsókna hefur sýnt að ef nautkálfum frá mismunandi stöðum er blandað saman í sláturhúsum byrja þeir að slást. Þetta getur valdið meiðslum eða mari á vöðvum en einnig er hætta á að orkuforði vöðvanna eyðist og þá koma fram streituskemmdir í kjötinu. Hægt er að koma í veg fyrir þetta með því að binda gripina, en það er ekki æskilegt út frá velferðarsjónarmiðum, auk þess sem starfsmenn geta slasast við að koma böndum á nautin. Besta leiðin er því að hafa nægjanlega margar stíur til að geta látið gripi sem koma frá sama bæ og úr sömu stíu, ganga saman. Ef það er ekki mögulegt verður að halda hyrndum gripum frá kollóttum og flokka dýrin eftir aldri og kyni.

Önnur lausn á þessum vanda er að skipuleggja flutninga og slátrun þannig að hægt sé að slátra sem flestum gripum um leið og þeir koma í hús; sérstaklega ef um er að ræða graðnaut. Sums staðar er þeirri skoðun haldið á lofti að gott sé að láta nautgripi hvílast í sláturhúsunum svo þeir jafni sig eftir flutninginn. Margt bendir hins vegar til þess að þessi „hvíld” í sláturhúsi geti haft gagnstæð áhrif og í raun aukið á streitu gripanna. Ástæðan er að sjálfsögðu sú staðreynd að mjög erfitt er að bjóða gripunum afslappandi aðstæður (fóður, frið og gott legusvæði) í sláturhúsum.

Allir gripir þurfa að hafa aðgang að vatni á meðan þeir dvelja í stíum sláturhúsa. Nautgripir skulu ekki að vera án fóðurs lengur en sólarhring í einu.

Rekstrargangar
Þegar talað er um rekstrarganga er átt við gönguleiðir gripanna frá gripavagni og inn í banaklefann – hugsanlega með viðkomu í stíum. Þessir gangar hafa það eina markmið að leiða dýrin áfram og þess vegna eru gerðar allt aðrar kröfur til hönnunar þeirra en hönnunar stíanna. Eftirfarandi atriði stuðla að góðu flæði gripa eftir rekstrargangi:

· Gólfefni sem er stamt.
· Gólfflötur sem er laus við þröskulda eða þrep.
· Lárétt gólf (ef nauðsynlegt er að hafa rampa í ganginum þurfa þeir að vera með rimum og þeir mega ekki vera brattir (hámark 20% halli).
· Tveir gripir mega ekki geta gengið hlið við hlið.
· Gripirnir eiga ekki að geta snúið sér við.
· Gripirnir eiga ekki að geta haft félagslegt samneyti við aðra gripi (utan gangsins).
· Gangurinn á að vera lokaður af þannig að umhverfið trufli ekki gripina.
· Gangurinn á að vera yfirbyggður þannig að gripir geti ekki hoppað upp á hvern annan.
· Allar beygjur eiga að vera ávalar.

Síðasta atriðið kemur inn á tvo þætti. Í fyrsta lagi geta kröpp horn skaðað gripina og þar með valdið lakari kjötgæðum. En í annan stað skynja dýrin skörp horn sem botnlanga sem þau vilja síður ganga inn í. Ef gangurinn hins vegar sveigir fyrir horn þá sjá dýrin ekki fyrir endann á honum og þá leiðir gangurinn þau áfram. Oftast er mælt með að U-beygjur séu teknar með radíusi upp á 3,5-5,0 m.

Með hliðsjón af sjónskynjun nautgripa má mæla með því að lýsingin í rekstrargöngum sé mikil en jöfn. Mikilvægt er að koma í veg fyrir skuggamyndun því nautgripir munu í mörgum tilfellum líta á skugga á gólfi sem þröskulda eða holur. Eins og mörg önnur dýr hafa nautgripir tilhneigingu til að ganga frá dimmum stöðum til bjartari staða, en þó er mjög óheppilegt ef ljós skín beint framan í gripina; það blindar þá.

Þegar nautgripir koma í ókunnugt umhverfi eru þeirra fyrstu viðbrögð að stoppa og skoða sig um til að átta sig á aðstæðum. Vegna þessa er æskilegt að hliðar rekstrarganga séu lokaðar þannig að gripirnir sjái sem minnst af hinu framandi umhverfi. Nautgripir geta einnig átt erfitt með að átta sig á rimlaverki ganga og stía og geta ruglast á því hvaða hliðar eru lokaðar með rimlum og hvar opið er í gegn.

Meðhöndlun gripa
Notkun rafstafa er útbreidd aðferð til að reka nautgripi áfram í sláturhúsum, en öll notkun rafstafa er mjög óæskileg bæði með hliðsjón af kjötgæðum og velferð dýranna. Stafurinn gefur gripunum rafstuð sem án efa veldur miklum sársauka. Mikil notkun þeirra bendir annað hvort til þess að starfsfólk sé illa þjálfað eða að hönnun rekstrarganga sé ábótavant.

Ekki má berja skepnur eða klemma viðkvæma líkamshluta þeirra (s.s. granir, eyru, hala, pung, júgur). Það að snúa upp á hala er bannað í mörgum löndum (þ.á.m. í Evrópusambandinu) enda um að ræða mjög sársaukafulla meðferð á skepnum sem getur leitt til þess að halinn brotni. Aldrei má draga naut á nasahring.

Sjá einnig umfjöllun um nautgripi í 3. kafla.