Hross eru oftar flutt milli staða en annar búpeningur hérlendis. Keppnis- og sýningarhross eru mikið á ferðinni og reiðhross þéttbýlisbúa eru oft flutt langan veg í hagagöngu. Einnig er algengt að ferðahross séu flutt milli staða á bílum eða kerrum. Það ætti þó ekki að skipta máli fyrir þær lágmarkskröfur sem gera þarf til aðbúnaðar hrossa við flutning, hvort ætlunin er að slátra þeim strax að flutningi loknum eða ekki. Hrossin þekkja ekki tilgang ferðarinnar og velferð þeirra á meðan á flutningi stendur er óháð áfangastaðnum.
Helsti munurinn á flutningi sláturhrossa og reiðhrossa er að sláturhross eru oftar flutt í stærri hópum og nokkuð stór hluti sláturhrossa er ótaminn t.d. öll folöld. Umfjöllunin í þessum pistli miðast fyrst og fremst við flutning og meðferð á sláturhrossum, en þau ráð sem hér eru gefin má að sjálfsögðu nota við allan flutning þessarra gripa.
Skynjun hrossa
Hestar hafa vítt sjónsvið og sjá í einni sviphendingu um 330 gráður umhverfis sig. Þeir hafa hins vegar takmarkaða þrívíddarsjón, þar sem sjónsvið augnanna skarast á tiltölulega litlu svæði fyrir framan höfuð þeirra (sjá mynd).
Sjónsvið hrossa er að megninu til tvívítt og því er þeim torvelt að átta sig í rimlastíum og girðingum.
Beint fyrir framan höfuð hrossa er blint svæði, sem hvorugt auga nær til. Hross (líkt og nautgripir og fjölmargar aðrar skepnur) sjá því ekki það sem er beint fyrir framan nefið á þeim. Þessir eiginleikar varðandi sjón hrossa gera það að verkum að þau eiga erfitt með að greina mishæðir í undirlagi og einnig geta þau auðveldlega misreiknað sig við að meta fjarlægðir. Þetta á sérstaklega við í umhverfi sem einkennist af rimlum, eins og oft er í stíum, römpum og réttum.
Um hross gildir, eins og um margar aðrar búfjártegundir, að þau ruglast auðveldlega á skuggum og ójöfnum og því er jöfn og góð lýsing mikilvæg. Þeim er einnig eðlilegt að leita frá dimmum svæðum til vel upplýstra svæða, en blindast auðveldlega ef lýsingin sker í augu.
Hross heyra vel og hræðast öll ókunn hljóð. Þannig getur þeim orðið hvekkt við eigin fótatak, t.d. ef þau stíga upp á sliskju eða inn í gripaflutningavagn.
Hross hafa næmt lyktarskyn og geta greint milli ólíkra einstaklinga eftir lykt. Mikilvægt er að þrífa vagna eða kerrur sem nota á við hrossaflutninga en það verður að skola vel eftir þrifin því hrossum er oft illa við sápulykt ekki síður en lykt af ókunnum hrossum.
Hestar eru félagsverur og þeim líður að jafnaði best í hóp. Þetta á sérstaklega við um aðstæður sem hesturinn upplifir sem hættulegar. Því er best að flytja saman tvö hross eða fleiri – a.m.k. ef þau eru ekki vön flutningum. Ef geyma þarf hross í réttum sláturhúsa er best að hafa hross sem þekkjast saman í stíu, en ókunnum hrossum ætti ekki að blanda saman í sláturhúsi.
Flutningur
Hross má ekki flytja í sláturhús nema þau séu í það góðu ástandi að þau þoli flutninginn vel. Við þetta mat þarf að taka tillit til flutningsvegalengdar og aðbúnaðar á gripavagni.
Þó eru þrír hópar hrossa sem alls ekki ætti að flytja:
· Hryssur á síðustu þremur vikum meðgöngu.
· Hryssur sem hafa kastað innan tveggja sólarhringa.
· Nýfædd folöld með blautan naflastreng.
Slösuðum eða mjög lasburða dýrum þarf að lóga heima í samráði við dýralækni.
Rekið á vagn
Samkvæmt reglugerð um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa (132/1999) má halli gangbrettis (sliskju), sem notað er þegar hross eru leidd af eða á flutningatæki, ekki vera umfram 30°, og bil milli efsta hluta brettis og flutningapalls má ekki vera meira en 6 cm og hæð frá enda brettis og upp á pall má mest vera 25 sm. Í ráðleggingum frá vísindanefnd Evrópusambandsins um heilsu og velferð dýra er miðað við að sliskjan upp á hestavagninn ætti ekki að halla meir en 20% (jafngildir 11° horni sliskju við gólf) og jafnvel ætti hallinn að vera minni ef um er að ræða folöld eða veikburða hross. Í stöku tilfellum má hallinn vera allt að helmingi meiri en aðeins ef um er að ræða hross í góðu ásigkomulagi og sliskju sem ekki er hál og með rimum með 20-30 sm millibili. Þá er æskilegt að breidd sliskjunnar sé þannig að hrossin geti ekki snúið sér við á leiðinni upp. Hinsvegar er æskilegast að flutningstæki séu með lyftu, það gerir reksturinn mun auðveldari bæði fyrir menn og dýr.
4. mynd. Dæmi um góða hönnun á hestakerru. Lágur rampi með góðum rimum, breiður inngangur, bjart rými og tvær hásingar gefa aukinn stöðugleika.
Hross geta auðveldlega lært að stíga beint upp í lágar kerrur. Kosturinn við að kenna þeim það er að þá geta þau stungið hausnum inn í kerruna og kannað hana áður en þau stíga upp. Við villt hross og folöld er þetta sjaldan mögulegt og þá er best að nota rampa.
Mikilvægt er að vagninn eða kerran sé björt og hrein, og best er ef hægt er að opna hana í báða enda þannig að hrossin fái á tilfinninguna að þetta sé gangur en ekki lokað rými.
Ferðin
Hross leggjast nær aldrei í flutningum en geta hrasað og dottið og því má ekki vera það þröngt á þeim að þau geti ekki staðið upp aftur ef það gerist. Eins ætti ekki að binda hross sem ekki eru bandvön, heldur flytja þau laus í stíum. Bandvön hross er í flestum tilfellum óþarfi að binda við flutning.
Best er fyrir hross að snúa öfugt miðað við aksturstefnu. Þannig virðast þau eiga auðveldast með að standa af sér hraðabreytingar og hristing. Þetta helgast t.d. af því að hemlun er oftast hraðari en hröðun og ef hrossin snúa „öfugt” þá eru það afturfæturnir sem taka við þunga dýrsins við hemlun. Ef hrossið missir jafnvægi við hemlun þá lendir það með lendina í hlið vagnsins, í stað höfuðs. Til að eiga auðveldara með að halda jafnvægi þurfa hestar einnig að hafa gott rými fyrir framan og aftan sig í flutningskerrunni. Oft er miðað við 20-30 sm hvoru megin. Hross verða að fá að standa með höfuðið slakt, en ekki bundið eða þvingað upp á við.
Hross á vagni standa gleið og þurfa því aukið pláss.
Rými á gripum í flutningi er einn mikilvægasti þátturinn er varðar velferð þeirra. Rýminu má skipta í tvennt: Annars vegar flatarmál á grip, sem mælir það gólfrými sem hverjum grip er ætlað og hins vegar lofthæð sem getur haft veruleg áhrif á gæði loftræstingar. Nauðsynlegt er að hrossin hafi stuðning af umhverfi í flutningi t.d. af slám eða milligerðum. Í reglugerð nr. 132 frá 1999 kemur fram að rými í flutningi fullorðinna hrossa skuli vera að lágmarki 180 sm að lengd og 60 sm á breidd þar sem hross eru bundin á bása eða 1 m2 fyrir hross í stíum. Stíur fyrir folöld skulu vera það rúmar að þau geti lagst og staðið upp.
Rýmisþarfir hrossa við flutning má reikna út frá sömu jöfnu og rýmisþarfir annarra gripa:
Rými á grip = 0,021*(þyngd)0,67
Í 2. töflu má sjá niðurstöður jöfnunnar fyrir mismunandi þunga gripi. Tekið skal fram að þessar viðmiðanir eiga einungis við ferðir sem vara minna en 5 klst. Í lengri ferðum þarf meira rými á grip.
2. tafla. Rýmisþarfir misstórra hrossa.
Þungi á fæti | Æskilegt rými á hross (m2) |
50 | 0,30 |
100 | 0,45 |
200 | 0,75 |
300 | 0,95 |
400 | 1,15 |
500 | 1,35 |
Það skal þó tekið sérstaklega fram að folöld eru gjörn á að leggjast þegar þau eru flutt og því skal hafa mun rýmra á þeim en hér er kveðið á um, ef flytja á þau lengur en 4 klst.
Loftræsting gripavagna skiptir miklu máli. Óeinangraðir vagnar geta þeir verið mjög kaldir á haustin og vetrum en á heitum sumardögum getur orðið mjög heitt inni í vögnunum – sérstaklega þegar bíllinn stendur kyrr. Í öllum tilfellum þarf að vera hægt að loftræsta gripavagna og það er best gert með loftgötum á hliðum og framenda vagnanna. Til að loftræstingin virki þarf að vera gott loftrými fyrir ofan gripina; að lágmarki 20 cm fyrir ofan höfuð stærstu dýra.
Öryggismál við flutning þurfa að vera í lagi. Það er nauðsynlegt að gera meiri kröfur til vagna sem notaðir eru til gripaflutninga en vagna sem notaðir eru til annarra flutninga. Hestaflutningabílar og kerrur þurfa að vera þannig útbúnar að tryggt sé að hrossin geti ekki slasað sig, m.a. þurfa gólf að vera stöm. Þá þarf að vera hægt að losa vagnana í neyðartilfellum, t.d. ef vagninn veltur.
Skipulag ferðar
Flutningstíminn einn og sér er ekki góður mælikvarði á það álag sem hross verða fyrir, því aðbúnaður gripanna, gerð vegarins, fjöldi hemlana, biðtímar, ökuleikni bílstjórans og brynning eða hvíldarstopp skipta ekki síður máli.
Ef aðstæður eru góðar byrja dýrin að slappa af nokkru eftir að ferð hefst og jafna sig eftir álagið sem oftast er tengt því þegar rekið er upp á vagninn. Tíðni hjartsláttar lækkar og magn streituhormóna lækkar. Hross leggjast ógjarnan í flutningavögnum – helst á mjög löngum ferðum, ef undirlag og rými gefa tækifæri til.
Best er ef ferðin tekur það stuttan tíma að ekki sé nauðsynlegt að fóðra/brynna skepnunum en ef nauðsynlegt reynist að fóðra/brynna, þá er best ef hægt er að gera það án þess að reka hrossin af vagninum, nema þau séu vön því að fara upp og niður af vagninum. Ekki er nauðsynlegt að fóðra eða brynna hrossum í mjög stuttum ferðum (styttri en 2 klst.) en í lengri ferðum ættu þau að hafa aðgang að grófu heyi. Ekki skal gefa hrossum kjarnfóður á meðan á flutningi stendur, því það eykur hættuna á meltingartruflunum. Hins vegar þarf að brynna þeim á 6-8 klst. fresti.
Hross sýna greinileg merki um þreytu eftir 8-12 klst. ferðalag og hætta á veikindum eykst eftir því sem flutningur tekur lengri tíma. Með hliðsjón af þessu ætti flutningur hrossa ekki að taka lengri tíma en 8 klst. án hvíldar. Ef ljóst er að flutningi lýkur innan 10 klst. er þó mögulegt að ljúka honum án hvíldar. |
Samkvæmt reglugerð 132/1999 skal ávallt sýna hrossum fyllstu nærgætni svo að þeim líði eins vel og kostur er. Óheimilt er að ofgera hrossum í flutningi eða rekstri og hvíla skal þau reglulega. Einnig segir í reglugerðinni að litið skuli til hrossa í flutningi á a.m.k. fjögurra klst. fresti og oftar við erfiðar aðstæður.
Aðstaða í sláturhúsi
Sterk goggunarröð er í hrossahópum og því best að halda aðskildum hrossum frá mismunandi bæjum. Meiri hætta er á slagsmálum í sláturhúsi og þarf að gæta vel að blöndun hrossa þar. Hryssur geta verið grimmar en geldingar eru yfirleitt rólegri. Velja þarf saman hross sem líklegt er að lyndi saman.
Ekki er vitað um sérstaka streitugalla í hrossakjöti og því ekki ráðlagður ákveðinn hvíldartími í sláturhúsarétt.
Í stíum þurfa að vera stöm rimlagólf svo tað og skítur gangi niður. Milligerði þurfa að vera 160 sm há að lágmarki svo hross nái ekki að bíta hvort annað yfir milligerðin. Neðri hluti milligerða þarf að vera heill og það sterkur að hross nái ekki að sparka í gegnum hann (10mm krossviður nægir ekki). Bill milli neðri og efri hluta milligerða og bil út við hliðstólpa mega ekki vera það lítil að hægt sé að festa fót þar á milli (hámark 8-10 sm fyrir fullorðin hross og 5-8 sm fyrir folöld). Slys í þessu sambandi eru mjög algeng og nauðsynlegt að koma í veg fyrir.
Þegar hross eru rekin í banaklefa er ekki er gott að þau sjái inn í aðrar stíur og því á rekstrargangur að vera lokaður (þétt klæddur) upp í tveggja metra hæð og nógu mjór til að hrossin nái ekki að snúa sér við eða um 60 – 80 sm breiður. Best er að leyfa hrossum að fara sjálfum rólega fram rekstrarganginn en ef þarf þá á að reka þau rólega áfram með því að stugga varlega við þeim. Óþolinmæði og læti við rekstur hefur í för með sér meira erfiði fyrir menn og dýr og lengir rekstrartímann. Ólíklegt er að hægt sé að teyma hross sem ekki eru vön taumi.