Þetta vefrit fjallar um meðferð dýra síðustu sólarhringana fyrir slátrun, um aðferðir við aflífun og einnig um meðferð kjöts. Sérstök áhersla er lögð á velferð dýranna, þ.e. að góð meðferð dýra sé höfð að leiðarljósi. Samkvæmt dýraverndarlögum er skylt að fara vel með öll dýr. Þar stendur einnig að óheimilt sé að hrekkja dýr eða meiða og að forðast skuli að ofbjóða kröftum þeirra og þoli. Mannúðleg meðhöndlun sláturdýra stuðlar að auknum gæðum afurða. Ávinningur af góðri meðferð sláturdýra og kjöts er því mikill.
Margir þættir hafa áhrif á velferð sláturdýra og gæði afurða. Í 2. kafla er fjallað um fóðrun fyrir slátrun, um rekstur og flutning og aðstæður í sláturhúsi fyrir helstu búfjártegundir hérlendis. Í 3. kafla er greint frá aðferðum við slátrun. Að lokum er, í 4. kafla, fjallað um sýrustigsmælingar og kælingu kjöts. Orðskýringar og heimildir um efnið eru í 5. og 6. kafla. Efni um áferðarmælingar, litarmælingar, myndgreiningu, skynmat, upphengingu nautakjöts og raförvun nautakjöts er að finna í 1., 2. og 3. viðauka. Að lokum er listi yfir áhugaverða tengla er tengjast efni bæklingsins.
Markmið með útgáfu þessa bæklings er að bæta meðferð sláturdýra og kjöts og þar með að auka velferð dýra og kjötgæði. Bæklingnum er ætlað að upplýsa aðila sem vinna með sláturdýr um áhrif meðferðar á dýr og afurðir. Einnig er hér að finna upplýsingar um hvernig best sé staðið að sýrustigsmælingum og kælingu kjöts.
Bæklingurinn í heild sinni á .pdf formi: Meðferð sláturdýra og kjötgæði
Eftirtaldir unnu efni vefritsins:
Birna Baldursdóttir, var ritstjóri og skrifaði um svín og slátrun,
Guðjón Þorkelsson, var ráðgjafi,
Jarle Reiersen, skrifaði um alifugla,
Jóhannes Sveinbjörnsson, skrifaði um sauðfé,
Magnús Guðmundsson, skrifaði um kjöt,
Óli Þór Hilmarsson, skrifaði um kjöt,
Rósa Jónsdóttir, skrifaði um kjöt,
Sigurður Örn Hansson, skrifaði um slátrun
og Torfi Jóhannesson, skrifaði um nautgripi og hross.
Þeim er lásu handrit vefritsins er þakkað fyrir góðar ábendingar.