Hámark sett á magn transfitusýra í matvæli

Undanfarið hefur átt sér stað tímabær umræða um magn transfitusýra í matvælum. Hjá Matís eru framkvæmdar magnmælingar á transfitusýrum sem og á öðrum fitusýrum og innihaldsefnum í matvælum.

Stjórnvöld hafa ákveðið að settar verði reglur um hámarksmagn transfitusýra í matvælum að danskri fyrirmynd.

Rannsóknir sýna að neysla  á transfitusýrurm eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og því eru þessar reglur settar.  Nokkur lönd hafa sett strangar reglur eða viðmið varðandi transfitusýrur í matvælum til að draga úr magni þeirra og sett merkingarskyldu á umbúðir, eins og t.d. Danmörk, Bandaríkin, Brasilía, Sviss og Kanada.

Hvað eru transfitusýrur?
Framleiðsla og notkun á transfitusýrum í matvælum á sér yfir 100 ára sögu, en ferilinn var hannaður af Þjóðverjanum Wilhelm Normann 1901 sem jafnramt var fyrsti framleiðandi slíkra fita á iðnaðarskala.  Transfitusýrur myndast þegar fljótandi fita (aðallega jurtafita) er hert að hluta með því að blanda henni saman við vetnisgas og nikkel undir miklum hita og þrýstingi.  Slík fita hefur mun lengra geymsluþol en fljótandi fita og hefur verið notuð í margar mismunandi afurðir og til steikingar og baksturs í marga áratugi.  Transfitusýrur má einnig finna í fitu jórturdýra frá náttúrunnar hendi. Nýju reglurnar á Íslandi taka aðeins til transfitusýra í iðnaðarhráefni. Hlutfall transfitusýra í fitu jórturdýra er aldrei hátt og þessi fita hefur verið í fæði mannsins um aldir.  

Áhrif transfitusýra á heilsu
Mettaðar fitusýrur auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eins og transfitusýrur en þær síðarnefndu eru álitnar verri.  Rannsókn frá 2006 benti til þess að rekja mætti 30.000 til 100.000 dauðsföll í Bandaríkjunum til neyslu transfitusýra.  Þegar transfitusýrurnar eru teknar út úr matvælum eða hlutfall þeirra lækkað þarf að passa uppá að auka sem minnst hlut mettaðra fitusýra.  

Mælt er með því að fólk velji sem oftast olíu eða mjúka fitu í stað harðrar fitu sem nær bæði yfir  mettaðar fitusýrur og transfitusýrur. Umræða um neikvæð heilsufarsleg áhrif transfitusýra hefur farið mjög vaxandi á síðustu 10 árum og hafa bæði framleiðendur hertra jurtaolía og matvælaframleiðendur lagt sitt af mörkunum að draga úr magni transfitusýra í matvælum.  Það má þó enn bæta stöðuna töluvert og upplýsa neytendur betur.

Magn transfitusýra í íslenskum matvælum
Matís ohf býður upp á mælingar á fjölmörgum fitusýrum í matvælum og eru transfitusýrurnar þar á meðal. Mælingar eru gerðar fyrir fyrirtæki, eftirlitsaðila og einstaklinga. Á árunum 2008 og 2009 var gerð hjá Matís úttekt á fitusýrum í matvælum á íslenskum markaði.  Úttektin náði til 51 sýnis og  var gerð í samstarfi við Lýðheilsustöð og Matvælastofnun og var meðal annars ætlað að afla upplýsinga fyrir íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) sem Matís rekur. Í ljós kom að transfitusýrumagn í matvælum var mjög breytilegt. Transfitusýrur mældist í borðsmjörlíki, bökunarsmjörlíki, steiktum bökunarvörum, jurtaís og örbygjupoppkorni. Aðeins sum vörumerki þessara vara innihéldu transfitusýrur en önnur voru alveg laus við þessar fitusýrur. Þetta sýnir að hægt er að losna við transfitusýrurnar úr þessum vörum og matvælaiðnaðurinn er kominn vel á veg í þessum efnum.

Í úttektinni var kex, sælgæti og matur frá skyndibitastöðum án transfitusýra. Þetta er mikil breyting frá því sem var fyrir um 15 árum. Í rannsókn sem var unnin árið 1995 reynsist vera mikið af transfitusýrum í mörgum matvælum á íslenskum markaði. Niðurstöður rannsóknarinnar frá 1995 má sjá hér:

www.matis.is/media/utgafa/matra/Matra_-02-09_-Fitusyrur.pdf

Hvernig má draga úr magni transfitusýra?
Matvælaiðnaðurinn þarf nú að bregðast við og sjá til þess að transfitusýrur fari ekki yfir 2 g í 100 g af þeim vörum sem eftir er að fást við. Það er mjög misjafnt eftir gerð matvæla hvernig unnið verður að breyttri samsetningu. Í sumar vörur er hægt að nota fljótandi olíur og er það besta lausnin frá næringarsjónarmiði. Í öðrum tilfellum þarf að nota fitu á föstu formi en hún getur verið mikið mettuð. Hálfhert fita inniheldur transfitusýrur en fullhert fita inniheldur ekki transfitusýrur en mikið af mettuðum fitusýrum.  Ein leið matvælaframleiðenda er því að blanda saman fullhertri fitu með olíu til að fá transfitusýrufría fitu með sambærilega eiginleika hálfhertrar fitu. Ætla má að almenningur verði ekki var við breytingar á framboði matvæla þar sem matvælaiðnaðurinn mun einfaldlega velja önnur hráefni til framleiðslunnar.

Almenningur hefur vaxandi áhuga á gerð fitunnar í matvælum. Mikið er spurt um transfitusýrur og hvernig hægt sé að finna út hvort matvæli innihaldi þessar fitusýrur. Mælingar á fitusýrum gefa alltaf öruggasta svarið en hægt er að styðjast við upplýsingar á umbúðum. Ef innihaldslýsingin tilgreinir aðeins olíur sem fituhráefni er ekki um transfitusýrur að ræða.

Hjá Matís starfar Ólafur Reykdal sem er einn sérfræðinga okkar Íslendinga um transfitusýrur. Nánari upplýsingar veitir Ólafur, olafur.reykdal(at)matis.is.