Útgerðamynstur

Almennt má skipta útgerðamynstri skipa sem stunda gámaútflutning í tvo megin flokka.  Annars vegar er um að ræða útgerðir sem einbeita sér að því að afla hráefnis fyrir eigin vinnslu og senda því einungis út þann hluta aflans sem þeir treysta sér ekki til að vinna sjálfir; og hins vegar útgerðir sem einbeita sér fyrst og fremst að gámaútflutningi. 

Útgerðir sem eru að afla hráefnis fyrir fiskvinnslu í landi þurfa almennt að stýra sinu útgerðamynstri út frá þörfum landvinnslunnar, til að mynda hvað varðar landanir og tegundaval, en útgerðir sem einbeita sér að gámaútflutningi stýra sínum skipum einvörðungu út frá þörfum markaðanna í Bretlandi og Þýskalandi.  Þetta kemur til dæmis fram á þann veg að fyrri hópurinn landar gjarnan sínum afla í upphafi vikunnar þrátt fyrir að gámaskipin sigli ekki fyrr en undir lok vikunnar, þannig bætast allt að 3-4 dagar við aldur fisksins áður enn hann fer frá landinu.  Hinn hópurinn aftur á móti reynir að stýra skipunum þannig að þau séu að öllu jöfnu að landa sama dag og gámaskipin sigla.