Upplýsingagjöf

Mikilvægt er fyrir kaupendur Íslensks gámafisks að vita, með eins miklum fyrirvara og mögulegt er, hvort nægilegt framboð verði af fiski frá Íslandi á næstu dögum.  Það er að sama skapi mikilvægt fyrir íslenskar útgerðir að koma á framfæri áreiðanlegum upplýsingum um væntanlegt framboð til kaupenda, þar sem að öðrum kosti er hætta á að kaupendur afli hráefnis annarsstaðar frá og að verðsveiflur verði óþarflega miklar.  Það eru að vísu í sumum tilvikum rök fyrir því að betra sé fyrir útgerðir að halda markaðinum í óvissu um framboð, til að keyra upp verð þegar framboð er lítið og draga úr hættu á verðhruni þegar framboð er mikið.  En til lengri tíma litið er þó ljóst að hagsmunir íslenskra útgerða og fiskverkenda í Bretlandi fara saman, því allir hlekkir virðiskeðjunnar eru háðir því að hægt sé að hámarka hagnað keðjunnar í heild.  Þó svo að verðsveiflur geti komið sér vel til skemmri tíma litið, þá er stöðugleiki það sem kemur öllum til góða til lengri tíma litið.

Fiskverkendur í Bretlandi vilja fá upplýsingar um væntanlegt framboð næstu viku ekki síðar en á miðvikudegi, þannig að þeir hafi möguleika á að bregðast við framboðsskorti með því að kaupa fisk annarsstaðar frá, þá helst frá Noregi.  Ljóst er að ómögulegt sé að veita nákvæmar upplýsingar um framboðið á þessum tíma, þar sem stærstur hluti flotans er þá enn að fiska í, en það er að minnsta kosti mögulegt að upplýsa um hvernig útlitið sé.  Fiskmarkaðir í Bretlandi reyna eftir megni að koma þessum upplýsingum til skila á framboðssíðum sínum (expected supply) á vefnum og með því að senda út upplýsingar á tölvupósti og faxi til þeirra sem þess óska.  Samkvæmt reglugerð 224/2006 er útflytjendum skylt að tilkynna fyrirhugaðan útflutning á óvigtuðum afla sólahring áður en hann fer um borð í farmskip.

Nokkuð algengt er að gámaskipin tefjist vegna veðurs á leið sinni milli Íslands og Bretlands, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.  Þetta getur valdið umtalsverðum óþægindum fyrir fiskverkendur í Bretlandi, sér í lagi ef Eimskip nær ekki til hafnar í tæka tíð fyrir mánudagsuppoð, því  þá má segja að mánudagurinn sé ónýtur fyrir verkendurna.  Ljóst er að við þessum töfum er lítið að gera, en mikilvægt er þó að upplýsa kaupendur um fyrirsjáanlegar tafir á siglingaáætlun flutningaskipanna.  Skipafélögin bjóða sjálf upp á hægt sé að sjá staðsetningu skipa sinna í rauntíma og því eiga kaupendur sjálfir að geta að einhverju leyti fylgst með þessu.