Flest fiskvinnslufyrirtæki landsins krefjast þess að allur fiskur sem kemur til vinnslu hjá þeim sé dagmerktur. Það er hins vegar töluverður misbrestur á að gámafiskurinn sé dagmerktur, enda hafa slíkar upplýsingar fram að þessu ekki fylgt fiskinum inn á gólf uppboðsmarkaðanna þar sem kaupendur hafa ekki farið fram á að fá þessar upplýsingar.
Það má þó ljóst vera að upplýsingar um veiðidag, veiðarfæri, veiðisvæði og fleiri nytsamar upplýsingar eru mikilvæg gögn sem nýst geta fiskverkendum í Bretlandi. Þannig geta þeir til dæmis áttað sig betur á gæðum fisks með því nýtta sér upplýsingar um veiðidag ásamt áunnu orðspori veiðiskips. Þetta ættu sér í lagi að vera verðmæt gögn fyrir fiskverkendur sem bjóða í afla óséð. Einnig er mikilvægt fyrir kaupendur að vita aldur hráefnisins þegar ákveðið er í hvaða röð eigi að vinna hráefnið og þegar síðasti neysludagur er ákvarðaður.
Tiltölulega einfalt er að hámarka gæði þeirra gagna sem fram koma á dagmerkjum eða öðrum fylgigögnum með því tengja prentun merkjanna (eða söfnun annarra gagna) við tölvubúnað veiðiskipsins, markaða, flutningsaðila o.s.frv. Þannig er til dæmis mögulegt að samkeyra þessa gagnasöfnun með öðrum rafrænum gagnaskráningakerfum sem fyrir hendi eru í virðiskeðju gámafisksins, eins og rafrænni afladagbók, SeaData, WiseFish, FisHmark o.fl.