Það er í grundvallaratriðum aðeins einn aðili sem tengir saman kaupendur á fiskmörkuðum í Bretlandi og seljendur á gámafiski frá Íslandi. Þetta er fyrirtækið Atlantic Fresh Ltd. sem er breskt umboðsfyrirtæki í eigu íslenskra aðila, en fyrirtækið sér um að selja fisk fyrir hönd útflytjenda frá Íslandi, Færeyjum og annarsstaðar frá. Sem tengiliður á milli seljenda og kaupenda er fyrirtækið í þeirri aðstöðu að geta stjórnað framboði og upplýsingagjöf inn á markaðina. Því fylgir þó sú ábyrgð að ferlið sé gagnsætt, að upplýsingar séu áreiðanlegar og þeim sé komið til skila á viðeigandi hátt.
Atlantic Fresh hefur meðal annars því hlutverki að gegna að viðhalda rekjanleika vörunnar alla leið inn á gólf fiskmarkaðanna og að tryggja að flokkun og gæði séu í samræmi við kröfur. Í dag er framsetning rekjanleikaupplýsinga þannig háttað að eftir að fiskurinn hefur verið stærðarflokkaður í 50 kg kassa er hver kassi merktur með upplýsingum um tegund, stærð, magn, veiðiskip, gámanúmer og lotunúmer. Ef kaupandinn hefur áhuga á getur hann svo haft samband við Atlantic Fresh og fengið hjá þeim enn frekari upplýsingar um aflann. Atlantic Fresh og markaðirnir höfðu hér áður fyrr vigtunarleyfi frá íslenskum yfirvöldum, sem gerði þeim kleift að taka á móti óvigtuðum afla. Þessu fyrirkomulagi var hins vegar breytt árið 2013 og síðan þá hefur lokavigtun þurft að fara fram á íslenskri grundu. Þá velja útflytjendur milli 16% fastrar ísprósentu eða láta lokavigta allan aflann áður en hann er settur í gám. Atlantic Fresh hefur svo skyldum að gegna gagnvart íslenskum yfirvöldum þegar kemur að upplýsingagjöf um verð og magn þess afla sem seldur er á mörkuðunum fyrir þeirra tilstilli. Atlantic Fresh er einnig með söluskrifstofu í Boulogne-sur-mer í Frakkalandi og hafa umsvif fyrirtækisins þar aukist umtalsvert á undanförnum árum. Í þýskalandi er það svo fyrirtækið Isey sem gegnir þessu hlutverki, en eins og Atlantic Fresh er Ísey í eigu íslenskra aðilla.
Hlutverk umboðsaðilans er meðal annars að:
- Stjórna framboðinu – bæði á markaði (Grimsby og Boulogne til dæmis) og vikudaga
- Veita upplýsingar um væntanlegt framboð
- Tryggja rekjanleika
- Tryggja upplýsingastreymi milli veiða og vinnslu
- Fylgjast með og veita upplýsingar um gæði
- Tilkynna Fiskistofu um landaðan afla