Vigtun

Þegar vara er merkt með þyngd eða fjölda þá er að finna í flestum markaðslöndum okkar ákveðnar reglur um lágmarksinnihald pakkninga miðað við merkingu og í flestum tilvikum eru þessar reglur settar fram í lögum og reglugerðum. Tilgangur þessara reglna er tvíþættur, það er að gæta hagsmuna neytenda annars vegar og taka tillit til hagsmuna framleiðenda hins vegar.
Hér á árum áður var almennt miðað við að sérhver pakkning innhéldi að minnsta kosti merkta þyngd, þetta koma sér einkar vel fyrir neytendann en var slæmt fyrir framleiðandann þar sem hann varð að tryggja rétta vigt með því að yfirpakka, þ.e. að hafa ákveðna yfirvigt. Magn yfirvigtar var mjög háð nákvæmni við vigtun og áfyllingaraðferð.

Um 1980 tóku gildi reglur í Evrópusambandinu (ESB) þar sem miðað er við lágmarks meðalþyngd (average system), sem margir nefna e-reglur. Reglur ESB krefjast þess að varan standist viðmiðunarpróf, einnig bjóða reglurnar upp á að sérstakt eftirlit með áfyllingu og mega þá framleiðendur slíkra vara merkja sína vöru með e merki. Slík merking þýðir að viðkomandi vöru má flytja á milli landa innan ESB án sérstaks viðmiðunarprófs.

Einhver brögð munu vera að því að framleiðendur noti e merkið án þess að þekkja reglurnar, kaupendur biðja um þessa merkingu án þess að gera sér grein fyrir hvað hún felur í sér og framleiðendurnir gera sér ekki grein fyrir ábyrgðinni. Þetta hefur þó sloppið stórslysalaust sennilega mest vegna þess að algengt er í íslenskum fiskiðnaði að vigta með ríflegri yfirvigt. Lengi hefur verið miðað við að vigta 10g í yfirvigt fyrir hvert pund sem pakkningin inniheldur.

Í Bandaríkjunum er ekki eins ljóst hvaða reglur eru í gildi. Víða í matvælaiðnaðinum er talað um lágmarksvigtun, þ.e. hver pakkning verður að standast merkta þyngd, en samt er hægt að finna reglur hjá þeim sem byggja á svipuðum grunni og ESB reglurnar þ.e. meðalþyngd þó viðmiðin séu önnur. En almennt má segja að standist varan aðra hvora regluna þá standist hún báðar.

Oftast eru fyrir hendi ákveðnar vinnslulýsingar áður en vara er framleidd, og eru þessar vinnslulýsingar nokkurs konar samningur milli framleiðanda og kaupanda um hvaða skilyrði varan á að uppfylla. Almennar opinberar reglur, hvort sem það eru vigtunarreglur eða aðrar, segja til um lágmarksviðmið, kaupendur geta síðan sett inn strangari viðmið í sínar vöru- eða vinnslulýsingar, viðmið sem verður þá að taka tillit til við verðlagningu.



e-ið sem notað er til merkinga á umbúðum þarf að uppfylla ákveðin skilyrði um stærð og lögun


e – reglan

Það eru í raun þrjár reglur sem standa að baki kröfum ESB um innihald neytendapakkninga:

Regla 1: Innihald má ekki vera minna að meðaltali en merkt þyngd.
Regla 2: Allt að 2,5% (1 af 40) eininga mega vera léttari en merkt þyngd að frádregnu leyfðu fráviki, T1 (sjá dæmi síðar). Þær einingar eru kallaðar “non-standard”
Regla 3: Engin eining má vera léttari en merkt þyngd að frádregnu tvöföldu leyfðu fráviki T2. Slíkar einingar eru kallaðar “inadequate” (ófullnægjandi)

Leyfð frávik má sjá í töflunni hér að neðan, en frávikin eru háð þyngd pakkninga.

Merkt þyngd g eða mlLeyfð frávik      % af merktri                  g eða mlþyngd                  
5 til 50          9**
50 til 100          **4,5
100 til 200          4,5**
200 til 300          **9
300 til 500          3**
500 til 1.000          **15
1.000 til 10.000          1,5**
10.000 til 15.000           **150
Meira en 15.000           1**

Dæmi um notkun þessara reglna:
Innihald er merkt 1.000g, það þýðir samkvæmt töflunni hér að ofan að leyft frávik er 15g.
“Non-standard” einingar eru þá einingar sem eru léttari 1.000g – 15g = 985g og þær einingar sem eru “inadequate” (ófullnægjandi) eru léttari en 1.000g – 2 x 15g = 970g.

Til þess að fullnægja reglunum þremur hér að ofan þá þarf meðaltalið að vera meira en 1.000g og einungis 1 af hverjum 40 (2,5%) einingum má vera léttari en 985g og að síðustu þá má engin eining vera léttari en 970g.

Í samskiptum milli kaupenda og framleiðenda er oft vísað í þessar reglur og er þá mjög algengt að talað er um T1 og T2.

T1 í dæminu hér að ofan svarar til 985g og T2 er 970g.

Vert er að hafa það í huga að einstaka kaupendur geta verið með stífari kröfur en þessar hér að ofan og verður þá að taka tillit til þess þegar vigtað er. T.d. er ekki óalgengt að þeir sem kaupa blokkir (16,5 lb) hafi önnur viðmið, sem aftur geta verið mjög mismunandi milli kaupenda og markaða.

USA – reglur
Það hefur ekki verið alveg átakalaust að fá úr því skorið hvaða reglur gilda í Bandaríkjunum. Stærstu kaupendurnir krefjast þess að innihald pakkninga sé ekki minna en merkt þyngd, sem þýðir að framleiðendur verða að vigta töluvert meira en merkingar umbúða segja til um.

Samkvæmt upplýsingum frá National Institute of Standard and Technology sem gefið hefur út NIST Handbook 133, þá eru ekki í gildi reglur í USA sem krefjast þess að allar pakkningar innihaldi að minnsta kosti merkta þyngd heldur sé meðaltalsreglan notuð sem viðmið og leyfð frávik eru svipuð og í Evrópu. Samkvæmt NIST þá eru svipaðar reglur í gildi í USA eins og í Evrópu.

Meðalþyngd eininga verður að vera merkt þyngd eða meira og samkvæmt ákveðnum sýnatökutöflum þá mega ekki finnast einingar léttari en ákveðin leyfð frávik sem eru kölluð “Maximum allowable variation” (MAV).

Hvað varðar 1.000g pakkningu eins og dæminu hér að ofan þá er MAV = 35g sem þýðir að engin pakkning má vera léttari en 1.000g – 35g = 965g og að auki verður meðalþyngdin að vera > eða = 1.000g.

Önnur lönd
Mjög erfitt er að segja til um hvaða reglur gilda í öllum viðskiptalöndum okkar og verða því framleiðendur að kynna sér reglurnar í samvinnu við sína viðskiptavini. Mjög mörg lönd hafa tekið upp e-reglurnar eða sambærilegar reglur. Rf getur aðstoðað framleiðendur við að afla slíkra upplýsinga.

Almennt um yfirvigt
Það geta legið mikil verðmæti í yfirvigtinni einni saman, og þegar almenna reglan er að vigta með 10g yfirvigt fyrir hvert pund sem í pakkningunni er, þá er hér um að ræða 2,2% yfirvigt. En það verður að skoða hverja vöru fyrir sig, 2,2% er ekki mikið þegar um smápakkningar er að ræða og er tæplega nóg í sumum tilvikum, en þegar er um að ræða 15-20 lbs pakkningar þá er magnið orðið verulegt eða allt að 200g á öskju.

Það er nánast útilokað annað en að vigta alltaf með einhverri yfirvigt, þrátt fyrir fullkomnasta vigtunarbúnað þá verður aldrei alveg komist hjá því. En það eru til ýmsar aðferðir til þess að lágmarka yfirvigt og sumar hverjar kosta ekki mikið annað en smá yfirlegu og skoðun á því hvernig vigtunin hefur verið að undanförnu. Slík skoðun felur fyrst og fremst í sér að meta þyngdardreifingu og hvort hægt sé að minnka yfirvigt án þess að eiga á hættu að brjóta einhverja af vigtunarreglunum.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins getur aðstoðað framleiðendur við að meta stöðu vigtunar, hvort óhætt sé að minnka yfirvigt og hvernig best sé að standa að vigtunareftirliti.

Ítarefni:
Code of Practical Guidance for Packers and Importers, Department of Trade and Industry, HMSO Publication Center 1994. ISBN 0-11-512922-7

NIST Handbook 133

SP Swedish National Testing and Research Institute