Dregið hefur úr transfitusýrum í matvælum hér á landi á síðustu árum, að því er fram kom í viðtali Fréttastofu Stöðvar 2 við Ólaf Reykdal verkefnastjóra hjá Matís. “Það hafa verið gerðar einstaka mælingar en fáar á allara seinustu árum, þær sýna að í vissum vörum hafa, hefur dregið úr magni transfitusýra,” sagði Ólafur í samtali við Stöð 2.
Transfitusýrur eru svokölluð hert fita og óæskilegar í miklum mæli en neysla á þeim hækkar blóðkólesteról og eykur þannig líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum.
Ólafur segir þó enn nokkuð um að transfitusýrur séu í matvælum. En þær geta verið í unnum matvörum eins og smjörlíki og kexi og vörum sem að hafa verið djúpsteiktar eins og frönskum kartöflum. Ólafur hvetur fólk til að skoða innihaldslýsingar á vörum.
Ólafur Reykdal: “Ef að það kemur fram í innihaldslýsingunni að það hafi verið notuð hert fita þá er þar transfitusýra, það er semsagt hydrogenated.”