Sérfræðingar frá Matís gefa góð ráð um kjöt og grænmeti á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Um er að ræða matreiðsluþætti þar sem íslenskar búvörur eru í öndvegi.
Bændur hafa slegist í hóp með þekktustu matreiðslumönnum landsins við gerð matreiðsluþátta sem hlotið hafa heitið „Eldum íslenskt“. Í þáttunum verður höfuðáhersla lögð á íslenskt hráefni úr sveitinni og rammíslenskar eldunaraðferðir. Það er meistarakokkurinn Bjarni G. Kristinsson, yfirmatreiðslumeistari á Hótel Sögu, sem stjórnar þáttunum en þeir eru unnir í nánu samstarfi við ÍNN, Bændasamtökin, Matís og flestöll búgreinafélög. Þættirnir verða blanda af fræðslu og matreiðslu og bæði vísað í hefðir og nýtísku aðferðir. Meðal kokka sem koma við sögu eru þau Gunnar Karl á Dilli og Hrefna Sætran á Fiskmarkaðnum auk þaulreyndra manna úr Hótel- og veitingaskólanum. Auk þess koma sérfræðingar frá Matís í þættina og upplýsa sjónvarpsáhorfendur um kjöt og grænmeti, t.d. hvernig úrbeina á kjöt.Farið verður í heimsókn í sveitina og spjallað við bændur um framleiðsluna auk þess sem kennd verða undirstöðuatriði við meðhöndlun ýmissa búvara, s.s. úrbeining kjöts og geymsla grænmetis. Markmiðið er að fjalla um hefðbundinn íslenskan heimilismat og sýna fram á þau ótvíræðu gæði sem íslensk búvöruframleiðsla býr yfir.
Þættirnir verða sýndir vikulega í sumar og haust á sjónvarpsstöðinni ÍNN sem og mbl.is auk þess að birtast á vefsíðum búgreinafélaganna þegar tímar líða. Styrktaraðilar þáttanna eru Félag kjúklingabænda, Samband garðyrkjubænda, Félag hrossabænda, Landssamtök sauðfjárbænda, Landssamband kúabænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag ferðaþjónustubænda, Beint frá býli, Hótel Saga og Bændasamtökin.
Óli Þór Hilmarsson og Valur Norðri Gunnlaugsson eru sérfræðingar Matís í þáttunum.
Upptökur þáttanna má finna hér að neðan: